133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[21:58]
Hlusta

Frsm. umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það er mikið af stórum og miklum málum sem við erum að samþykkja nú á Alþingi en ég vil fullyrða að þau gerast ekki miklu stærri en þetta þar sem mér sýnist að við séum í góðri sátt að samþykkja frumvarp til laga sem felur umhverfisráðherra að friðlýsa með reglugerð stærsta þjóðgarð í Evrópu en þetta er þjóðgarður sem er a.m.k. tvöfalt stærri en sá næststærsti.

Það má segja að við Íslendingar höfum kannski byrjað svolítið seint þegar kemur að náttúruvernd. Að einhverju leyti hefur það komið til vegna þess að við þurftum kannski ekki mikið að hafa fyrir því í okkar strjálbýla landi. Við vorum svo sem ekki að setja neinn þjóðgarð á laggirnar árið 1872 þegar fyrsti þjóðgarðurinn, Yellowstone þjóðgarðurinn í Bandaríkjunum var settur á stofn en árið 1906 gengu Bandaríkjamenn lengra og gengu þannig frá málum að Bandaríkjaforseti þurfti ekki að fá samþykki þingsins til þess að friðlýsa hin ýmsu svæði og hafa forsetar Bandaríkjanna gert það síðan.

Af nágrönnum okkar á Norðurlöndunum settu Svíar fyrstir náttúruverndarlög árið 1909, við Íslendingar settum okkar fyrstu lög 1956 en þó samþykktum við lög um þjóðgarð, fyrsta þjóðgarðinn okkar á Þingvöllum árið 1928. Síðan Skaftafellsþjóðgarð árið 1967, Jökulsárgljúfur 1973 og Snæfellsjökul 2001. Það er þó ekki svo að menn hafi ekki gert neitt í náttúruverndarlögum. Við bönnuðum veiðar á hreindýrum 1787, lög um fuglavernd voru sett árið 1913 o.s.frv.

Þetta mál, virðulegi forseti, sem ég á von á að verði góð sátt um, er mjög stórt. Það hefur verið góð samstaða um það á Alþingi Íslendinga á undanförnum árum að ganga langt í því að friðlýsa svæði. Það hefur verið góð sátt um það að stofna þennan þjóðgarð sem er auðvitað stórmál og menn hafa í rauninni verið að vinna að því máli á vettvangi framkvæmdarvaldsins, í starfshópum og nefndum frá árinu 1999. Til að setja þetta í eitthvert samhengi voru þjóðgarðar á Íslandi árið 2001 sem samsvarar innan við 2% af landinu en þegar þessi þjóðgarður hefur verið stofnaður verða þeir 13–15% af Íslandi og þá verðum við búin að friðlýsa land úr 12–13% af landinu í yfir 20%. (Gripið fram í: Í yfir 20%?) Í yfir 20%, virðulegi forseti.

Þetta er gríðarlega stórt mál og það ber þess merki. Það er augljóst að unnið hefur verið vel að þessu flókna máli af því að margir þurfa að koma að því. (Gripið fram í.) Það sem mönnum er uppálagt í þessu máli, virðulegi forseti, er samvinna. Því það er alveg ljóst að menn ná ekki að mynda þennan stóra þjóðgarð nema í góðri sátt við þá aðila sem að því koma. (ÖS: Heimamenn.) Meðal annars heimamenn, virðulegi forseti, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson bendir hér á. Hann þekkir þessi mál vel enda hefur hann komið að undirbúningi þessa máls.

Það er ekkert eignarnám í gangi í kringum þennan þjóðgarð en það er samningur í gangi við landeigendur. Það var augljóst þegar lagt var af stað með þetta mál að þeir aðilar sem þarna búa, við getum kallað þá heimamenn sem eru við þetta svæði, vildu hafa eitthvað um málið að segja. Það varð niðurstaðan. Það er hins vegar ekki þannig að menn ætli að slaka eitthvað á faglegum kröfum. Það hefur bæði verið gert ráð fyrir því og einnig lagði nefndin áherslu á það að þetta væri ekki bara í góðri sátt við heimamenn heldur alla landsmenn og að þeir aðilar sem munu njóta þessa garðs, sem eru auðvitað allir landsmenn, fái beina aðkomu að málinu.

Virðulegi forseti. Í frumvarpinu er lagður grunnur að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Frumvarpið er unnið í samráði við ráðgjafarnefnd sem þáverandi umhverfisráðherra, Sigríður A. Þórðardóttir, skipaði 30. nóvember 2005 til að vinna með ráðuneytinu að undirbúningi málsins. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar allra sveitarfélaga á því svæði sem rætt hefur verið um að Vatnajökulsþjóðgarður nái til, auk fulltrúa umhverfisverndarsamtaka og formanns skipaðs af umhverfisráðherra. Áður var unnið að undirbúningi málsins í þingmannanefnd skipaðri fulltrúum þeirra þingflokka sem þá áttu sæti á Alþingi og fjallaði hún um svæðið norðan jökulsins. Sú nefnd var einhuga í málinu og lagði í maí 2004 fram tillögur um umfang verndarsvæðisins, verndarstig einstakra svæða og stjórnarfyrirkomulag þjóðgarðsins.

Í frumvarpinu er settur rammi fyrir Vatnajökulsþjóðgarð, sérstaklega hvað varðar stjórnarfyrirkomulag hans og rekstur. Gert er ráð fyrir að friðlýsing þjóðgarðsins taki gildi við setningu reglugerðar um hann og eru því mörk hans ekki ákvörðuð í frumvarpinu. Mun því gefast kostur á að bæta við nýjum svæðum síðar. Mörkin munu m.a. ráðast af samningum við landeigendur þess hluta landsins sem er í einkaeigu. Svæðið sem gert er ráð fyrir að þjóðgarðurinn taki til við stofnun nær til átta sveitarfélaga og þekur um 13% af yfirborði Íslands. Nefndin telur mikilvægt að sátt ríki um þau landsvæði sem verða innan þjóðgarðsins en vonast jafnframt til þess að fleiri landsvæði bætist við með tímanum. Má í því sambandi einkum nefna Langasjó.

Heimamenn hafa komið að undirbúningi að stofnun þjóðgarðsins og hafa þeir lagt á það áherslu að hlutur þeirra í stjórn og rekstri Vatnajökulsþjóðgarðs verði meiri en í þeim þjóðgörðum sem þegar hafa verið stofnaðir. Nefndin telur það eina af forsendum þess að verkefnið gangi vel að sátt ríki um fyrirkomulagið á milli allra landsmanna og að heimamönnum verði tryggð þátttaka í stjórn og rekstri. Telur nefndin þó rétt að benda á að þótt hér sé farin önnur leið er ekki ætlunin að faglegt eftirlit með þjóðgarðinum verði minna en ella. Það er afar mikilvægt að bæði fagaðilar og almenningur geti haft áhrif hvað stjórn þjóðgarðsins varðar.

Svo því sé til haga haldið leggur nefndin til ákveðnar breytingar á frumvarpinu en margar þeirra eru tæknilegar. Nefndin var einnig einhuga um að útivistarsamtök, sem eru samtök eins og Ferðafélag Íslands, 4x4 og ýmis ferðafélög um landið, hafi beina aðkomu að stjórn garðsins. Því leggur nefndin til að í svæðisráðunum, sem eru fimm, verði einnig fulltrúi útivistarsamtaka og að í sjö manna stjórn verði útivistarsamtökin með áheyrnarfulltrúa. Á sama hátt hafi útivistarsamtökin kærurétt þegar mál koma upp eins og umhverfissamtök og aðrir hagsmunaaðilar.

Virðulegi forseti. Þetta er mál sem við hefðum haft mjög gaman af að spjalla um og fara yfir hér. Þetta er þess eðlis og er afskaplega stórt og gott mál. Það er ánægjulegt hve góð samstaða er innan þings og meðal þjóðarinnar um þetta gríðarstóra verkefni. Þetta er hins vegar bara fyrsta skrefið á langri vegferð. Eins og ég nefndi kallar þetta á samvinnu við mjög marga aðila. Það skiptir máli að menn haldi þannig á málum að sem best sátt verði um það. Þannig mun þjóðgarðurinn stækka, þannig mun hann eflast og verða öllum landsmönnum eitthvað sem við getum verið afskaplega stolt af og mun sömuleiðis styrkja þau svæði sem liggja að honum og án nokkurs vafa nýtast vel, t.d. í ferðamennsku og öðru atvinnulegu tilliti.

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka nefndarmönnum fyrir gott samstarf hvað þetta varðar. Við þurftum að vinna þetta mál nokkuð hratt en ég held að við höfum unnið það örugglega. Við leggjum til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Undir nefndarálitið skrifa hv. þingmenn Ásta R. Jóhannesdóttir, Mörður Árnason, Ásta Möller, Rannveig Guðmundsdóttir, Kjartan Ólafsson, Sigurrós Þorgrímsdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir og sá sem hér stendur.

Hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson skrifaði undir álitið með fyrirvara.

Virðulegi forseti. Ég óska okkur öllum til hamingju með þetta mál og vonast til að við munum sjá Vatnajökulsþjóðgarð verða eitt af því sem við Íslendingar verðum stoltir af í nútíð og framtíð.