133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[22:08]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs er stórmál og er mál sem Samfylkingin lætur sig miklu varða. Ég hlýt að halda því til haga að Samfylkingin flutti tillögu til þingsályktunar á Alþingi fyrir fjórum árum um þjóðgarð sem næði til Vatnajökuls og alls umhverfis hans en eins og við þingmenn vitum var búið að stækka Skaftafellsþjóðgarð á suðursvæðinu.

Hér eru sett lög um að stofna þjóðgarð með reglugerð. Auðvitað er það álitamál hver mörk þjóðgarðs eiga að vera. Þetta hefur nefndin rætt eins og kom fram hér í framsögu en Samfylkingin vill að Jökulsá á Fjöllum, Langisjór, Kreppa og fleiri tilkomumikil svæði sem ekki enn tilheyra því svæði sem í byrjun er hugsað að verði innan þjóðgarðsins, komi inn í hann síðar. Við teljum að það verði að vera framtíðarsýn um það hvaða svæði þjóðgarðurinn skuli ná yfir þegar fram líða stundir þótt því takmarki verði eingöngu náð í áföngum.

Þessi löggjöf er því fyrsti áfangi en hún er grundvöllur að því sem koma skal. Það er þýðingarmikið að þótt slíkum þjóðgarði sé tryggt ákveðið sjálfstæði með sérstakri yfirstjórn og svæðisráðum verði allar tengingar við löggjöf á umhverfis- og náttúruverndarsviði tryggðar. Sömuleiðis tengsl Umhverfisstofnunar og stjórnenda þjóðgarðsins.

Bæði umhverfissamtök og samtök útivistarsvæða fá nú aðkomu í stjórn og svæðisráðum og það er mjög mikilvægt. Við erum að stofna þjóðgarð um stórkostlegt landsvæði sem er einstakt í Evrópu. Að ferðast á jöklinum eða óbyggðunum í umhverfi hans lætur engan ósnortinn. Við eigum þess vegna að umgangast þetta svæði sem einstakt náttúrusvæði sem ekki má spilla. Þannig eigum við að viðhalda einkennum óbyggðasvæða um leið og faglega verður tryggt að þéttbýlissvæðin og heimamenn njóti þeirra tækifæra sem opnast við gerð þjóðgarðsins.

Mörg störf verða þarna til og það er mjög þýðingarmikið fyrir þetta svæði. Umræða okkar í nefndinni hefur alfarið snúist um að þarna verði eðlilegt jafnvægi. Það er mikilvægt að feta bil beggja, heimamanna og annarra landsmanna, við undirbúning að stofnun þjóðgarðsins. Þetta höfum við fulltrúar Samfylkingarinnar lagt mikla áherslu á í umræðunni um stjórn og aðkomu fagmanna. Sömuleiðis teljum við mjög mikilvægt að faglega verði staðið að málum varðandi gerð verndaráætlunar, að lýðræðislegt ferli sé tryggt sem og kæruréttur tryggður.

Svæðið laðar að fólk með ólík áhugamál og fjölbreyttar þarfir, bæði þá sem kjósa að nota vélknúin ökutæki og þá sem sækjast eftir að leggja land undir fót og vilja njóta fegurðar, friðsældar og kyrrðar. Nefndin er mjög meðvituð um að þarna þarf að tryggja að vaxandi ferðaþjónustu sé ekki of þröngur stakkur sniðinn. Í svona máli höfum við öll miklar skoðanir. Þær geta bara ekki allar náð fram, sérstaklega ekki í upphafi þegar sú leið er farin að lagasetningin byggir á því að sett verði reglugerð og í raun og veru verði framkvæmd laganna raunveruleiki í fyllingu tímans. Þess vegna er mikilvægt að við höfum náð þokkalega góðri sátt um þetta mál og ég vil lýsa því yfir að hér er stigið mjög stórt skref í náttúruvernd að ég tali ekki um í gerð þjóðgarðs á Íslandi.