133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[22:13]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Frú forseti. Vegna ræðu hv. framsögumanns umhverfisnefndar um þetta mál þar sem m.a. var komið inn á hlut heimamanna í stjórn og rekstri Vatnajökulsþjóðgarðs og að við þann undirbúning hafi þeir lagt áherslu á að hlutur þeirra verði meiri í þessum þjóðgarði en öðrum sem þegar hafa verið stofnaðir, þá vil ég af því tilefni og af tilefni ræðu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, þar sem hún lagði áherslu á að farið verði bil beggja, milli heimamanna og annarra landsmanna með stjórn og undirbúning þjóðgarðsins, taka það fram að til þess að tryggja þessi tengsl í hinu nýja stjórnskipulagi sem ætlunin er að koma á um þennan þjóðgarð sem er nýtt, það er sérstök stjórn fyrir þennan þjóðgarð, þá hlýtur það að vera ætlun okkar að nýta reynslu Umhverfisstofnunar í þessu samhengi. Ég lýsi því hér yfir að ætlun mín er sú að það verði gert til hins ýtrasta og jafnvel hugað að því við skipun manna í stjórn þjóðgarðsins.

Að öðru leyti vil ég segja vegna þessara ágætu tveggja ræðna sem hér hafa verið haldnar að að baki er átta ára undirbúningur sem að hefur komið fjöldi þingmanna, sem ég hef ekki tíma til að telja upp í þessu stutta andsvari, og fjöldi sveitarstjórnarmanna, þverfaglegt, þverpólitískt, flokkur manna sem að þessu stendur. Að baki er átta ára undirbúningur en við erum eftir sem áður en á annan hátt aðeins að taka fyrsta skrefið. Undirbúningsvinnunni er ætlað að verða lokið á næstu fimm árum. Þá verður þjónustunet þjóðgarðsins komið í framkvæmd en þegar á næsta ári er gert ráð fyrir að þjóðgarðurinn verði formlega stofnaður.

Ég legg mikla áherslu á faglegu tengslin við Umhverfisstofnun og mun huga sérstaklega að því við skipun stjórnar þjóðgarðsins.