133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

hlutafélög o.fl.

516. mál
[22:45]
Hlusta

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá efnahags- og viðskiptanefnd um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um samvinnufélög og lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur (millilandasamruni og millilandaskipting). Nefndarálitið er að finna á þskj. 1275.

Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um samruna félaga yfir landamæri verði innleidd í íslenskan rétt. Markmið tilskipunarinnar er aukin samvinna félaga á EES-svæðinu og að greiða fyrir samruna og skiptingu félaga með takmarkaðri ábyrgð yfir landamæri.

Samkvæmt frumvarpinu er gengið lengra en kveðið er á um í tilskipuninni en samkvæmt henni er heimilt en ekki skylt að gefa kost á millilandasamruna samvinnufélaga. Tilskipunin nær heldur ekki til sjálfseignarstofnana sem stunda atvinnurekstur en samkvæmt frumvarpinu skulu þær öðlast sömu möguleika og áðurnefnd félög til þátttöku í millilandasamruna og millilandaskiptingu. Nefndin telur að þau ákvæði frumvarpsins sem fjalla um samruna og skiptingu annars vegar samvinnufélaga og hins vegar sjálfseignarstofnana þarfnist nánari athugunar við og leggur til að þau ákvæði falli brott. Leggur nefndin þó áherslu á að áfram verði unnið að frumvarpi um samruna og skiptingu samvinnufélaga og sjálfseignarstofnana.

Um það var rætt í nefndinni hvort útvíkka ætti möguleika félaga til samruna yfir landamæri frá því sem er í frumvarpinu, þ.e. hvort heimila ætti slíkan samruna við félög sem heyra undir lög annarra landa en á Evópska efnahagssvæðinu. Nefndin leggur til að við frumvarpið bætist ákvæði þess efnis að millilandasamruni teljist ekki aðeins samruni þar sem samrunafélög lúti löggjöf a.m.k. tveggja ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu heldur geti samrunafélag einnig lotið löggjöf aðildarríkis Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyja. Þá verði viðskiptaráðherra í samráði við fjármálaráðherra heimilt að setja reglugerð þar sem kveðið verði á um að fleiri lönd verði tekin inn.

Nefndin telur rétt að taka fram að aðrar reglur gilda um samruna fjármálafyrirtækja, sbr. ákvæði XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki og X. kafla laga um vátryggingastarfsemi. Samruni fjármálafyrirtækja og vátryggingafélaga tekur ekki gildi fyrr en Fjármálaeftirlitið hefur veitt samþykki sitt.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson á sæti í nefndinni sem áheyrnarfulltrúi. og er hann samþykkur áliti þessu.

Undir nefndarálitið rita hv. þm. Pétur H. Blöndal, Jóhanna Sigurðardóttir, Dagný Jónsdóttir, Lúðvík Bergvinsson, Birgir Ármannsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, Ásta Möller og Sæunn Stefánsdóttir.