133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

umferðarlög.

195. mál
[22:48]
Hlusta

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti samgöngunefndar um frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og leggur til að það verði samþykkt en í frumvarpi þessu er lagt til að gerðar verði breytingar á 72. gr. gildandi umferðarlaga, nr. 50/1987. Lagt er til að hver sá sem er á bifhjóli, hliðarvagni, eftirvagni eða tengitæki bifhjóls skuli nota viðurkenndan lágmarkshlífðarfatnað, ætlaðan til slíkra nota. Þá er lagt til að ökumaður á bifhjóli eða torfærutæki skuli sjá um að farþegi yngri en 15 ára noti hlífðarhjálm og lágmarkshlífðarfatnað.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

C-liður 1. gr. falli brott.

Ég vil geta þess, virðulegi forseti, að í greinargerð með frumvarpi til laga sem hér var flutt hafa breyst númer á reglugerðum. Vitnað er í greinargerðinni til reglugerðar nr. 575/2001 en sú breyting hefur orðið á að sú reglugerð er nr. 930/2006.