133. löggjafarþing — 96. fundur,  18. mars 2007.

þingfrestun.

[00:16]
Hlusta

Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Háttvirtir alþingismenn. Senn lýkur störfum þessa þings sem er hið síðasta á kjörtímabilinu. Hinn 12. maí nk. rennur út það umboð sem við alþingismenn fengum fyrir fjórum árum.

Eins og jafnan á kosningaári hafa þingstörf staðið skemur en hin fyrri þing á kjörtímabilinu. Þó hafa verið afgreidd fjölmörg mál og í reynd ekki færri en á öðrum reglulegum þingum. Alls voru afgreidd 114 frumvörp sem lög og jafnframt voru samþykktar 29 þingsályktanir. Þrátt fyrir ágreining um ýmis mál á síðustu dögum þinghaldsins hefur tekist að ljúka störfum Alþingis í meginatriðum samkvæmt starfsáætlun þingsins og vil ég þakka alþingismönnum öllum fyrir samstarfsvilja þeirra í því efni.

Í ræðu sem ég flutti þegar ég tók við embætti forseta Alþingis 1. okt. 2005 lýsti ég m.a. áhuga mínum á því að beita mér fyrir breytingum á þingsköpum Alþingis með það að leiðarljósi að bæta vinnubrögð á þinginu. Þrátt fyrir að forseti og formenn þingflokka hafi lagt mikla vinnu í endurskoðun þingskapanna tókst ekki að ná samkomulagi um veigamiklar efnisbreytingar. Þær breytingar sem Alþingi hefur nú samþykkt eru þó allar til mikilla bóta fyrir störf þingsins. Það bíður hins vegar nýrrar forustu að koma í höfn þýðingarmeiri breytingum á þingskapalögum og starfsháttum þingsins og hef ég þá í huga atriði eins og ræðutíma, nefndaskipan og starfstíma Alþingis.

Ég nefndi einnig í ræðu minni að ég teldi að Alþingi ætti að beita sér fyrir sérstakri fræðslu meðal skólanema um löggjafarstörf og efla þannig skilning og þekkingu þeirra á stjórnskipulagi okkar, starfsháttum Alþingis og lýðræðislegum vinnubrögðum. Alþingi samþykkti við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2007 fjárveitingu til að hefja slíkt fræðslustarf undir heitinu skólaþing og verður aðstaða fyrir það tilbúin í Austurstræti 8 í lok apríl og mun það taka til starfa að fullum krafti í upphafi skólaárs síðari hluta þessa árs.

Það hefur verið kappsmál mitt eins og forvera minna að vinna að því að tryggja alþingismönnum og starfsfólki þingsins góð vinnuskilyrði. Það er mér því ánægja að geta skýrt frá því að forsætisnefnd hefur samþykkt að óska eftir breytingu á gildandi deiliskipulagi fyrir Alþingisreitinn með það í huga að fyrir liggi hvernig uppbyggingu á reitnum verður hagað þegar hafist verður handa við byggingu skrifstofuhúsnæðis á lóðum Alþingis við Vonarstræti og Tjarnargötu. Jafnframt felst í breyttu deiliskipulagi að húsið Skjaldbreið við Kirkjustræti verði tekið niður en framhlið þess endurbyggð og að húsið við Vonarstæti 12 verði flutt og sett við hlið Skjaldbreiðar. Hversu greiðlega muni síðan ganga að ljúka framkvæmdum á reitnum ræðst hins vegar af þeim fjárveitingum sem Alþingi á eftir að ákveða.

Ég vil geta þess að í vor og sumar er fyrirhugað að ljúka utanhússviðgerðum á Alþingishúsinu. Gert verður við norðurhlið þinghússins og auk þess unnið að gagngerum endurbótum á þaki þess en sú viðgerð er löngu orðin tímabær. Þá er verið að vinna að smíði nýrra húsgagna í Alþingishúsið sem komin verða í gagnið í vor. Húsgögnin voru valin að undangengninni samkeppni meðal íslenskra hönnuða. Samið var við íslenskan framleiðanda um smíði á húsgögnunum.

Öll erum við meðvituð um að saga Alþingis er bundin Þingvöllum órjúfanlegum böndum. Ég tel að það sé brýnt að treysta böndin milli Alþingis og Þingvalla. Í ljósi þess að innan stjórnkerfisins er hafinn undirbúningur að frekari uppbyggingu á svæðinu vil ég ítreka þá skoðun sem ég hef áður sett fram að ég tel að Alþingi eigi að hafa hús eða aðstöðu á Þingvöllum til þess að geta tekið á móti gestum þingsins og til þess að halda smærri fundi til hátíðarbrigða. Þannig mætti minna oftar og meira á hina löngu og einstæðu sögu Alþingis sem við erum svo stolt af.

Háttvirtir alþingismenn. Það kjörtímabil sem nú rennur skeið sitt senn á enda er að því leyti sérstakt að ekki hafa á einu og sama kjörtímabilinu orðið meiri breytingar á skipan þingsins. Þannig hurfu af þingi sjö þingmenn en einn þingmaður andaðist. Í hópi þeirra er létu af þingmennsku voru forustumenn beggja stjórnarflokkanna.

Flest bendir til þess að þegar nýtt þing kemur saman að loknum alþingiskosningunum 12. maí nk. verði meiri breytingar á skipan þingsins í kjölfar kosninga en við höfum séð um langt skeið. Á síðustu 70 árum hefur að jafnaði rúmur fjórðungur þeirra þingmanna sem hlotið hafa kosningu til Alþingis ekki áður átt þar fast sæti. Ekki er ólíklegt að á nýju þingi í vor verði hlutfall alþingismanna sem eru nýir í þessum sal talsvert hærra. Hér kemur það vitaskuld til að allmargir alþingismenn, eða rúmur fimmtungur þingheims, hafa ákveðið að bjóða sig ekki fram í næstu kosningum og svo er eins og jafnan tvísýnt um endurkjör sumra annarra háttvirtra alþingismanna.

Í þeim hópi alþingismanna sem hafa ákveðið að sækjast ekki eftir endurkjöri eru þrír varaforsetar Alþingis, hv. 2. þm. Suðvesturkjördæmis, Rannveig Guðmundsdóttir, hv. 4. þm. Norðausturkjördæmis, Jón Kristjánsson, og hv. 3. þm. Suðvesturkjördæmis, Sigríður Anna Þórðardóttir. Rannveig Guðmundsdóttir hefur setið á Alþingi í tæp 18 ár, Jón Kristjánsson hefur átt hér sæti í rúm 22 ár og Sigríður Anna Þórðardóttir hefur verið á þingi í 16 ár. Öll hafa þau setið á ráðherrabekk. Við alla þessa varaforseta hef ég átt mjög gott samstarf og vil ég þakka fyrir það.

Þá lætur nú af þingmennsku hv. 2. þm. Norðausturkjördæmis, Halldór Blöndal, sem var forseti Alþingis á seinasta kjörtímabili og fyrri hluta þessa kjörtímabils. Hann hverfur nú af þingi eftir 28 ára þingsetu. Þetta eru því mikil tímamót í lífi hans og ég óska honum alls hins besta í framtíðinni. Hann er tengdari þessu húsi en flestir hér því að hann kom hingað fyrst til starfa um 1960 sem blaðamaður.

Einnig hverfur nú af þingi hv. 1. þm. Suðurkjördæmis, Margrét Frímannsdóttir, fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins, fyrsti talsmaður Samfylkingarinnar og þingflokksformaður til margra ára, en hún hefur setið á Alþingi í 20 ár. Við Margrét höfum átt einstaklega gott samstarf á umliðnum árum og ég vil þakka sérstaklega fyrir það.

Auk þeirra þingmanna sem ég hef nú nefnt láta margir aðrir þingmenn af þingmennsku. Við þá alla hef ég átt ánægjulegt samstarf, jafnt flokksfélaga sem þingmenn úr öðrum flokkum. Ég ítreka þakkir mínar til allra þeirra sem nú hverfa af þingi fyrir störf þeirra á Alþingi og óska þeim alls hins besta í framtíðinni.

Við lok þinghaldsins þakka ég alþingismönnum samstarfið á þessu þingi. Ég færi varaforsetum þakkir fyrir ágæta samvinnu við stjórn þinghaldsins, svo og formönnum þingflokka fyrir gott samstarf á þessu þingi. Skrifstofustjóra og starfsfólki Alþingis þakka ég alla aðstoð og fyrir mikið og gott starf og ágæta samvinnu í hvívetna. Fréttamönnum þakka ég samstarfið við þá þennan tíma. Það er mikilvægt fyrir Alþingi að almenningur eigi kost á að fylgjast sem best með því sem hér er að gerast hverju sinni.

Þar sem ég er í hópi þeirra þingmanna sem láta nú af þingmennsku vil ég þakka samþingmönnum mínum fyrir góða viðkynningu og samstarf á umliðnum árum, samstarf sem hefur verið ánægjulegt í hvívetna. Hér er gott að starfa og það er góður andi í þessari virðulegu stofnun. Ég læt því af þingmennsku með góðar minningar um störf mín hér. Ég verð þó að játa að ég mun sakna Alþingis. Ég hef notið þeirra 16 ára sem ég hef setið á Alþingi, jafnt sem óbreyttur þingmaður, nefndaformaður og ráðherra og nú síðast sem forseti Alþingis. Ég hef ekki síst haft mikla ánægju af starfi þingforseta og hef leitast við að gegna því virðulega starfi eins vel og ég hef getað. Ég vil að lokum óska utanbæjarmönnum góðrar heimferðar og ánægjulegrar heimkomu og árna ykkur öllum allra heilla.