134. löggjafarþing — 2. fundur,  31. maí 2007.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:37]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Ég vil byrja á því að óska nýkjörnum þingmönnum til hamingju og velfarnaðar í mikilvægu starfi. Enn fremur flyt ég nýrri ríkisstjórn og forsætisráðherra mínar bestu árnaðaróskir á þessum tímamótum. Ég þakka íslenskri þjóð þau farsælu 12 ár sem við framsóknarmenn áttum aðild að ríkisstjórn, trúlega einn lengsta uppgangs- og hagsældartíma seinni áratuga.

Hin nýja ríkisstjórn byggir áætlanir sínar um framtíðina að stórum hluta til á starfi og stefnumörkun sem við framsóknarmenn höfum markað og undirbúið með Sjálfstæðisflokki — skuldlaus ríkissjóður, líf og fjör í landinu. Hins vegar virðist ríkisstjórnin ekki skynja að það er við vaxandi efnahagsvanda að etja vegna verðbólgu og viðskiptahalla. Það er vont að fljóta sofandi að feigðarósi. Ríkisstjórn sem þorir ekki að takast á við vandann á sínum fyrstu dögum fer ekki vel af stað.

Ísland hefur verið eitt af framsæknustu ríkjum Evrópu síðustu ár. Hér voru 12–14 þúsund Íslendingar án atvinnu árið 1995, landflótti og versnandi lífskjör. Þessu var öllu snúið á betri veg. Evrópa er full af fólki sem fæðist til lífsins og býr við þá raun að vera atvinnulaust allt sitt líf.

Hæstv. forseti. Hér situr ný ríkisstjórn með vonarglampa í augum. Ég efast ekki um góðan vilja ráðherranna til að láta gott af sér leiða. Ég hef hins vegar efasemdir um samstarf þessara flokka. Hér eru engar sögulegar sættir höfuðandstæðinga í íslenskri pólitík að eiga sér stað. Það hefur hins vegar gerst að íslenskur stjórnmálamaður, eins og hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefur étið grautinn sinn þótt hann væri saltur. Gammarnir á Íslandi eru að hrifsa völdin í Sjálfstæðisflokknum, hinn meinlausi forsætisráðherra mun ekki ráða för. Ég spyr: Verður ríkisvaldinu stjórnað utan úr bæ? Já, grauturinn er saltur, Borgarnesræðurnar eru gleymdar.

Einhvern tímann orðaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hugsun sína svo, með leyfi forseta:

„Samfylkingin hafnar stjórnlyndi Sjálfstæðisflokksins sem hefur það stefnumið eitt að halda völdum.“ Síðan sagði hún að markmiðið væri eitt, að leysa íslenskt samfélag úr viðjum þeirra þröngsýnu sérhagsmuna sem hafa þrifist í skjóli Sjálfstæðisflokksins.

Hæstv. utanríkisráðherra er valdapólitíkus, hún þrífst og brosir hafi hún völdin og nú hefur hún hæstv. forsætisráðherra í hendi sér, það er gaman. Allt er þá þrennt er: Fyrst klauf hún Kvennalistann, næst sveik hún flokkana sem stóðu að R-listanum og Reykvíkinga og nú hefur hæstv. ráðherra gengið á bak orða sinna um að Samfylkingin sé höfuðandstæðingur Sjálfstæðisflokksins.

Það merkilega og skemmtilega er að hlusta hér á Steingrím J. Sigfússon, foringja vinstri grænna. Enn grætur hann að vera ekki í bólinu hjá Sjálfstæðisflokknum, enda bað hann þeirra í beinni útsendingu og Ögmundur Jónasson einnig. Þeir vildu vera þar sem við vorum áður.

Hæstv. forsætisráðherra hefur hér flutt þingi og þjóð einhverja bragðdaufustu ræðu sem ég hef heyrt. Það var ekkert í þessari ræðu frekar en sáttmála ríkisstjórnarinnar. Um hvað snerist samkomulag forustumannanna á Þingvöllum? Þingmönnum stjórnarflokkanna er sýnd sú vanvirða, hvað þá okkur hinum, að sagan er hálfsögð. Hvers vegna þessa leynd og baktjaldamakk? Það er ljóst að þegar þessir flokkar ná saman leggjast þeir báðir á sína hægri hlið í ljósi þess að mesta eignarveldi á Íslandi er guðfaðir þessarar ríkisstjórnar. Hinar sögulegu sættir liggja í gegnum Baugsveldið.

Hvað gerist nú í heilbrigðiskerfinu? Hefst þar einkavæðing með forgangi þeirra ríku? Sjálfstæðisflokkurinn hefur ályktað um að einkavæðing hefjist nú í heilbrigðismálum, menntamálum og orkumálum. Framsóknarflokkurinn stóð gegn því að frjálsu markaðsöflin fengju hér allt í hendur.

Það liggur fyrir og báðir foringjarnir hafa staðfest það að rætt er um að færa Íbúðalánasjóð inn í fjármálaráðuneytið sem ég kalla líknardeild eða sölumeðferð. Ætlar velferðarráðherrann Jóhanna Sigurðardóttir að láta Sjálfstæðisflokkinn og bankakerfið hrifsa Íbúðalánasjóð til sín og þar með fyrsta veðréttinn í eignum fólksins í landinu, íbúðarhúsum þeirra? Bankakerfið þarf kannski á því að halda í dag á sinni hröðu ferð. Að koma sér upp húsnæði er velferðarmál einstaklinganna. Þjóðin vill og telur það öryggismál að Íbúðalánasjóður starfi áfram. Það liggur fyrir að bankakerfið hefur viljað kokgleypa sjóðinn. Sjálfstæðisflokkurinn er sömu skoðunar. Ég spyr: Hvað vill Samfylkingin í þessu máli?

Framsóknarflokkurinn lítur á það sem mikilvægt atriði að fólk ráði sinni tilveru. Félagslegt öryggi eru mikilvæg mannréttindi. Eitt af stærstu grundvallaratriðum hverrar þjóðar er að tryggja að fáir fái ekki allt of mikið og margir allt of lítið. Skattapólitík Sjálfstæðisflokksins hefur ávallt verið þeim ríku og efnuðu í hag og bitnaði á þeim mörgu og tekjulægri.

Ég segi hér: Það er mikilvægt að horfa til byggðanna með nýjum hætti. Það fjarar undan sjávarþorpum víða um land. Það er líka hægt að stöðva uppbyggingu og ný tækifæri sveitanna. Ég get tekið undir með ríkisstjórninni að landið verði eitt búsetu- og atvinnusvæði og vona að orðum fylgi efndir. Ég þarf ekki að minna hæstv. landbúnaðarráðherra á að síðustu ár vitna um framsækinn og öflugan landbúnað, landbúnað sem á ótal ný tækifæri og framleiðir í hreinni náttúru einstök matvæli. Samkvæmt óljósum fréttum virðist standa til að færa stóran hluta af vísindamönnum landbúnaðarins annað. Skógrækt og landgræðsla er landbúnaður um allan heim. Ég bið hæstv. landbúnaðarráðherra að fara yfir þessi mál af vandvirkni. Landbúnaðarháskólarnir eru atvinnuvegaháskólar. Ég óttast að þessir miklu uppgangsskólar hverfi í hítina fari þeir í menntamálaráðuneytið og deyi þar innan frá. Næstbesti kosturinn gæti verið sjálfseignarform en undir því dafnar viðskiptaháskólinn á Bifröst vel.

Það sem hins vegar vekur mesta athygli nú er að Sjálfstæðisflokkurinn er að snúast Evrópusambandinu á hönd. Það sem ekki var á dagskrá í gær heitir í dag opinská umræða um Evrópumál. Hvað nú með Davíð Oddsson og þann arm flokksins? Hvað hugsar hann við þessar aðstæður? Svona snerist Sjálfstæðisflokkurinn á einni nóttu frá harðri andstöðu gegn EES-samningnum og kokgleypti það mál með krötunum. Nú eru breytingar í nánd. Spurningin er hvort Evrópusýn Samfylkingarinnar verði hin nýja sólarsýn Sjálfstæðisflokksins. Ég á mér ekki þann draum. Ég tel að Ísland og Noregur eigi að standa fast saman um EES-samninginn og þróa hann sem sína viðskiptabrú við Evrópu. Frelsi Íslands utan Evrópusambandsins þýðir athafnafrelsi Íslendinga í framtíðinni.

Það er nú svo að það verður einstaklega skemmtilegt að gegna starfi samgönguráðherra næstu árin. Það stafar af því að fyrrverandi samgönguráðherra tókst með sínum flokki og í samstarfi við okkur framsóknarmenn að móta stefnu um stærstu og mikilvægustu framkvæmdir í vegamálum. Í raun blasir við bylting í samgöngumálum á Íslandi á næstu fimm árum. Það þarf engan að undra þótt hæstv. forseti bryðji mélin við hinn nýja stall og fýli grön yfir örlögum sínum. „Að skiljast við ævinnar æðsta verk í annars hönd, það er dauðasökin“, sagði skáldið.

Sturla Böðvarsson, hæstv. forseti, var góður samgönguráðherra. Nú verður það hlutverk Kristjáns Möllers, hæstv. samgönguráðherra, að fara um landið sigurreifur. Það mun sindra á makkann á hæstv. ráðherra þegar stórverkin verða í höfn, jarðgöng, fjórbreiðir vegir, brýr og tengivegir sveitanna. Þá kemur hæstv. ráðherra á hvítum hesti með borðann, klippurnar og koníakið. Já, margt leggjum við upp í hendurnar á Samfylkingunni, verk og afrek sem þeir eiga enga hlutdeild í.

Góðir Íslendingar. Við framsóknarmenn munum veita ríkisstjórninni ábyrga og málefnalega stjórnarandstöðu. Við munum hafa hag landsins alls að leiðarljósi. Ég sé fyrir mér í framtíðinni að Framsóknarflokkurinn verður stjórnmálaaflið á miðjunni með hjartalag til vinstri. Honum til hvorrar handar verður annars vegar vinstri flokkur og hins vegar Sjálfstæðisflokkur. Undir slíku flokkakerfi vegnar alþýðu manna best. Þar eigum við framsóknarmenn ríkastar skyldur. — Góðar stundir.