134. löggjafarþing — 2. fundur,  31. maí 2007.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:48]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Góðir landsmenn. Ég þakka stuðninginn við Frjálslynda flokkinn í alþingiskosningunum á þessu vori. Ég þakka þeim sem unnu að kosningaárangri okkar, unnu fyrir flokkinn og fólkinu sem lagði okkur lið.

Ég óska hæstv. forseta velfarnaðar við stjórn þingsins og nýjum þingmönnum óska ég velfarnaðar í störfum sínum. Að sjálfsögðu vonast ég til þess, og þingflokkur Frjálslynda flokksins allur, að ríkisstjórnin verði gæfusöm í verkum sínum. Á mörgum sviðum er þörf umbóta, t.d. í velferðarmálum, skattamálum einstaklinga, tryggingamálum og huga þarf að hag heimilanna og miklum skuldum þeirra.

Þar sem ríkisstjórnin leggur áherslu á að hafa raunverulegt jafnrétti að leiðarljósi í allri stefnumótun, sem skapi öllum landsmönnum jöfn tækifæri, eins og forsætisráðherra sagði í ræðu sinni, þá vænti ég þess að þar séu loforð á ferðinni sem eigi að standa við. Þau eru gefin í upphafi ræðunnar um verkin og stefnuna. Slíkt jafnrétti hlýtur því að vera leiðarljósið.

Orð skulu standa, var yfirskrift eins af baráttufundum Vestfirðinga fyrir rétti sínum til að fá áfram að byggja á sinni einu stóriðju sem ávallt er tiltæk sem undirstaða atvinnu og búsetu, þ.e. fiskinum í sjónum. Hún hefur verið mörg Bolungarvíkin og Flateyrin á undanförnum árum. Því miður verður svo áfram að þar verður fólkið réttlaust til vinnu og búsetu þrátt fyrir loforð um að skapa öllum landsmönnum jöfn tækifæri, eins og sagt er í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar.

Fögur loforð hjá nýrri ríkisstjórn, en er eitthvert innihald í þeim orðaflaumi? Sums staðar má marka það af því sem stendur skrifað í sáttmála ríkisstjórnarinnar. Í velferðarmálum, skattamálum og tryggingamálum má víða finna orð og setningar sem lýsa breytingum sem gætu orðið til hagsbóta fyrir lágtekjufólk, aldraða og öryrkja, ef þær kæmu til framkvæmda. Að sjálfsögðu munum við, þingmenn Frjálslynda flokksins, leggja góðum málum lið, eins og við höfum oft gert á Alþingi, hver svo sem ber málin fram. Það á jafnt við um þessa ríkisstjórn sem aðrar þótt við séum í stjórnarandstöðu. Við í Frjálslynda flokknum erum stefnuföst og samkvæm sjálfum okkur, hver sem í hlut á. Það skal ítrekað að góð verk geta haft stuðning okkar. Við munum vinna með öðrum að því að standa vörð um sjálfstæði og heiður Alþingis, eins og forsætisráðherra boðaði, þótt verkin á Alþingi í dag sýni annað. Við skulum vinna að sátt í samfélaginu, m.a. um náttúruvernd og auðlindanýtingu og jafnvel marka stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna ef eitthvert vit og bót er í slíkri sáttargerð.

En spyrja má: Ef nýju hornsteinarnir í íslenskri utanríkisstefnu eru áhersla á mannréttindi, aukna þróunarsamvinnu og friðsamlega úrlausn deilumála, hverjar voru þá áherslur Davíðs og Halldórs? Voru þær stuðningur við stríð? Ráðning vildarvina í utanríkisþjónustuna, eins hratt og við væri komið og lítil áhersla á friðsamlega lausn deilumála? Svo má ætla ef upptalningin markar í raun nýja hornsteina í utanríkisstefnunni.

Víkjum aftur að innanlandsmálum og stöðu landsbyggðar. Við tökum því illa ef byggja á sáttargjörð á því markmiði að tryggja stöðugleika í sjávarútvegi, eins og sagt er í sáttmálunum, sem byggir á ósætti um kvótabraskskerfi, kvótakerfi sem með réttu má hafa nafnið þjófamarkskerfi, eins og einn gamall vinur minn á Ströndum orðar það. Lögin marka þau örlög sem hver sjávarbyggðin eftir aðra hefur hlotið síðastliðinn hálfan annan áratug, að fólkið sem þar býr nýtur ekki raunverulegs jafnréttis sem skapar öllum jöfn tækifæri, sem ríkisstjórnin þó boðar sem grunngildi sinnar stefnu. Telja stjórnarliðar virkilega að sérstök athugun á reynslunni af aflamarkskerfinu, eins og forsætisráðherra sagði orðrétt í ræðu sinni, leiði eitthvað í ljós, sem fólkinu í sjávarbyggðunum er hulið? Heldur hann að fólk missi atvinnu sína og tapi eignum sínum vegna þess að ekki hafi farið fram sérstök rannsókn eða athugun hjá fólki á Djúpavogi, á Breiðdalsvík, á Stöðvarfirði, Seyðisfirði, Borgarfirði eystra, Vopnafirði, Bakkafirði, Þórshöfn, Raufarhöfn, Kópaskeri, Húsavík, Grímsey, Hrísey, Ólafsfirði, Siglufirði, Hofsósi, Skagaströnd, Blönduósi, Hvammstanga, Hólmavík, Drangsnesi, Norðurfirði, Súðavík, Ísafirði, Bolungarvík, Suðureyri, Flateyri, Þingeyri, Bíldudal, Tálknafirði, Patreksfirði, Barðaströnd, Flatey, Stykkishólmi og jafnvel á Akureyri og Akranesi.

Það er vísbending um að minni ráðherranna sé ekki í lagi þegar slíkt orðalag, um sérstaka athugun á reynslunni af kvótabraskskerfinu, sem ég leyfði mér að kalla lög um þjófamark. Kerfið byggir á stórgölluðum lögum frá Alþingi sem stolið hafa atvinnurétti frá fólkinu í öllum þeim sjávarbyggðum sem ég taldi upp. Þó var ekki fulltalið, eins og sumir íbúar Suðurkjördæmis vita.

Nú er bestu verstöð landsins, Vestmannaeyjum, einnig ógnað með kaupum á veiðiréttindum, þ.e. óveiddum fiski í sjó. Óvissan er þannig lögbundin og innmúruð í kvótabraskskerfið. Frjálslyndi flokkurinn krefst breytinga og atvinnuöryggis fyrir fólkið í sjávarbyggðunum. Þannig er reynslan af kvótabraskskerfinu og það vita sumir þingmenn Samfylkingarinnar, eins og ræður þeirra og skrif báru með sér fyrir kosningar. Eins og sumir hafa talað vita jafnvel ráðherrar Sjálfstæðisflokksins ekki neitt um vanda byggðanna. Jafnvel ekki sjávarútvegsráðherrann sjálfur sem hafði ekki hugmynd um þá Flateyringa sem nú eru í vanda. Trúi orðum hans hver sem vill. Væntanlega trúa samflokksmenn orðum hans. Væntanlega verður af öllum kórnum tekið undir orð hans, að þetta ástand á Flateyri og áður í mörgum öðrum sjávarbyggðum sé vitaskuld alls ekki kvótabraskskerfinu að kenna.

Tímaritið Vísbending þvær allt í bak og fyrir í skrifum sínum, öllu þjófamarkinu og óróa á Alþingi til afsökunar. Þetta var að sjálfsögðu hin fullkomna hagræðing. Fólk sem vill veiða fisk og vinna við þau störf á að sætta sig við það að missa bæði vinnu og eignir. Hagfræðingar segja: Já, byggðinni má breyta. Það verða alltaf breytingar. Þá verða einnig til ódýr sumarhús fyrir okkur og aðra. Blaðið Vísbending vísar veginn að gæfu fólksins í sjávarbyggðunum sem að lokum leggur blómsveig að minnismerki hagræðingarinnar, hagræðingar Sjálfstæðisflokksins, eyðibyggðinni.

Ég spyr ykkur samfylkingarfólk, sem nú er komið í ríkisstjórn og til valda: Ætlið þið einhverju að breyta til betri vegar í stöðu sjávarbyggðanna? Ég vona að svo verði. Ég spyr ykkur, nýja þingmenn Sjálfstæðisflokksins: Ætlið þið að viðhalda þjófamarkskerfi um atvinnurétt, eignir og líf fólksins í sjávarbyggðunum? Ég vona að svo verði ekki. Ég vona að þið getið gengið á vegum réttlætisins inn í framtíðina.