134. löggjafarþing — 2. fundur,  31. maí 2007.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:36]
Hlusta

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Í upphafi máls míns langar mig að vitna til orða Jóhönnu Jóhannsdóttur, fyrrum bónda í Haga í Gnúpverjahreppi. Jóhanna segir, með leyfi forseta:

„Mér varð hugsað til Landsvirkjunar sem e.t.v. sekkur svo túnum í Haga á þessari fallegu landnámsjörð að ekki verður búandi hér lengur og enginn situr við glugga og dáist að fegurðinni eða nýtur góðs af gæðum jarðarinnar. Það er mikið vald sem fáeinir gróðahyggjumenn taka sér.“

Svo skrifar kona sem lifað hefur nær heila öld með Þjórsá. Jóhanna Jóhannsdóttir er á tíræðisaldri en engin öfgamanneskja, ekki frekar en sú sem hér stendur. Hún er einfaldlega ein fjölmargra Íslendinga sem berjast fyrir náttúrugersemum þjóðarinnar. Þótt sumir tali fjálglega um sátt er staðreyndin sú að baráttan um mestu dýrgripi okkar Íslendinga er enn í algleymingi. Í þeirri baráttu mun Vinstri hreyfingin – grænt framboð áfram verða leiðandi brautryðjendaafl umbóta. Við munum standa umhverfisvaktina eins og við erum vön, héðan úr stjórnarandstöðu á Alþingi.

Mér þykir stjórnarsáttmálinn fátæklegur í þessum efnum. Askja var friðlýst árið 1978. Telst það til sérstakra afreka nýrrar ríkisstjórnar að hreyfa ekki við Öskju, Kverkfjöllum, Hveravöllum þar til svokölluð framtíðarflokkun hefur farið fram? Mikill er metnaðurinn. Ekki er stakt orð að finna um Norðlingaölduveitu, ekki orð um Þjórsá.

Og hvað með sjávarútveginn? Jú, þar er óbreytt varðstaða um ranglætið. Í undraskjótri stjórnarmyndun hefur margítrekað komið fram að málefnaágreiningur Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar sé lítill sem enginn. Í hinni auðsjáanlegu óskaríkisstjórn beggja flokka er hlutur umhverfisins rýr þótt ég efist ekki um góðan ásetning nýskipaðs umhverfisráðherra og óski henni velfarnaðar í störfum.

Þá kemur í opna skjöldu að ekki skuli til staðar framsæknari og beittari stefna í kvenfrelsis- og jafnréttismálum. Hvar eru afgerandi aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi, vændi og klámvæðingu? Kynbundinn launamunur er brot á jafnræðisreglu stjórnarskrár lýðveldisins. Það er undarlegt metnaðarleysi að stefna einungis að því að minnka þann mun. Slíkan mun á að uppræta með öllu.

Forsætisráðherra kveðst ætla að stefna að því að jafna stöðu kvenna og karla í nefndum og stjórnunarstöðum. Virðulegi forseti. Hér hefðu verið hæg heimatökin í eigin ranni. Jafnvel ný hægri stjórn Frakklands skipar einvala liði kvenna jafnt sem karla í ráðherrastóla. Við sjáum hvernig ráðherrabekkurinn er skipaður heima á Íslandi. Er slík ríkisstjórn trúverðugur málsvari kvenfrelsis og jafnréttis?

Undir hvaða formerkjum eru svokallaðar frjálslyndar umbætur ef þær eru að mestu endurunnar yfirlýsingar fyrri stjórna og tala máli gærdagsins, íhaldsins, liðins tíma og veigra sér við nýrri og róttækri hugsun morgundagsins? Við viljum öll setja bættan hag barna, aldraðra og öryrkja í forgang. Þar tek ég heils hugar undir með nýrri stjórn. En hvar er metnaðurinn og djörfungin í stærstu ágreiningsmálum okkar tíma? Hvar er sköpunin, ferskleikinn og hin nýja sýn um betra samfélag jafnaðar sem lifir í sátt við náttúruna?

Ég er ekki sú eina í þessum sal sem óar við hinum óvenju samstillta boðskap frjálshyggju og einkavæðingar sem ný stjórn lofar. Kreddur sem fela sig undir yfirbragði frjálslyndis, frelsis og umbóta en viðhalda í raun misrétti, gróðafíkn og ranglæti, eru lúmskar. Slíkt er ekki pólitík framtíðarinnar. Pólitík framtíðarinnar byggir ekki á taumlausri gleði yfir nýjum valdastólum, spretthlaupi inn í ríkisstjórn eða faðmlagi nýfrjálshyggjuafla. Pólitík framtíðarinnar byggir á djúpstæðri og róttækri umhverfisvernd, sjálfbærri þróun, kvenfrelsi, jafnrétti, jöfnuði og félagslegu réttlæti, blómlegri menningu í öllum byggðum landsins. Þangað eigum við að stefna. — Góðar stundir.