134. löggjafarþing — 2. fundur,  31. maí 2007.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:42]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Við höfum í kvöld hlýtt á stefnuræðu forsætisráðherra ríkisstjórnar sem leggur mikla áherslu á umbætur í velferðarþjónustu og bættan hag heimilanna. Ríkisstjórnin er mynduð í framhaldi af tímabili þar sem stórframkvæmdir og þensla hafa sett svip á samfélagið. Hagvöxtur hefur verið umtalsverður en viðskiptahalli mikill, sem og skuldaaukning heimilanna og vaxtakostnaður allt of hár. Gagnrýnt hefur verið hvernig gæðum samfélags okkar hefur verið misskipt á milli landsvæða og á milli þjóðfélagshópa. Það er því engin tilviljun að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar séu tilgreind þau markmið að tryggja stöðugleika í þágu heimila og atvinnulífs og að koma á sátt og jafnvægi í samfélaginu.

Samfylkingin hóf kosningabaráttu sína með fundaherferð um landið þar sem boðaður var sáttmáli um jafnvægi og jafnræði. Talað var um jafnrétti á milli landsbyggðar og höfuðborgar, milli karla og kvenna, milli Íslendinga og innflytjenda, milli umhverfis og stóriðju, milli hagvaxtar og stöðugleika og á milli Íslands og Evrópu. Jafnframt var lögð megináhersla á endurreisn velferðarkerfisins þar sem málefni eldri borgara og öryrkja, auk málefna barna og ungmenna, voru í forgrunni. Öll þessi mál setja sterkan svip á stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar sem hér er til umræðu.

Ég ætla sérstaklega að ræða þau atriði sem snúa að jafnræði á milli landsbyggðar og höfuðborgar annars vegar og hins vegar hvernig velferðarmálin, þá einkum málefni yngstu kynslóðarinnar, eru með afdráttarlausum hætti sett í forgang hjá nýrri ríkisstjórn. Landsbyggðarfólk veit hversu mikilvægt er að jafnræði ríki á milli landsbyggðar og höfuðborgar og að starfsskilyrði fyrirtækja séu sambærileg óháð landsvæðum. Fagna ber því að ríkisstjórnin dragi fram mikilvægi þess að allir landsmenn eigi greiðan aðgang að menntun, atvinnu og þjónustu óháð búsetu og fái notið sambærilegra lífskjara. Slík yfirlýsing gefur skýr fyrirheit um sókn til bættra lífskjara fólks á landsbyggðinni.

Þá er ákveðið að störf á vegum ríkisins sem hægt er að vinna án tillits til staðsetningar verði að öðru jöfnu unnin á landsbyggðinni. Áhersla er lögð á stóreflingu samgangna og fjarskipta til að skapa jafnvægi í byggðum landsins. Ný ríkisstjórn boðar líka eflingu sveitarstjórnarstigsins með breyttri tekju- og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og með frekari tilflutningi á verkefnum til sveitarfélaganna. Þar eru nefnd bæði málefni aldraðra og málefni fatlaðra. Slíkur verkefnaflutningur, aukinn sjálfsákvörðunarréttur og ábyrgð heimaaðila, samhliða auknum tekjum sveitarfélaga, ætti ekki hvað síst að efla þjónustu og atvinnu á landsbyggðinni ef rétt er á haldið.

Því miður eru blikur á lofti og alvarlegt atvinnuástand í sjávarplássum á ákveðnum svæðum eins og á Vestfjörðum. Þar þarf að grípa til sértækra úrræða til að bregðast við ástandinu. Jafnframt þarf að breyta starfsumhverfi fyrirtækja á landsbyggðinni og auka þjónustu og menntun til að skapa fjölbreyttara atvinnulíf og betri búsetuskilyrði til lengri tíma. Hugmyndir varðandi slíkar lausnir eru nú þegar til umfjöllunar og verða á dagskrá á næstu dögum og vikum.

Það er sérlega ánægjulegt að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er ákveðið að móta og leggja fyrir Alþingi heildstæða aðgerðaáætlun í málefnum barna og ungmenna. Þar eru nefnd til sögunnar ýmis mál svo sem tannvernd barna, með gjaldfrjálsu eftirliti og auknum niðurgreiðslum. Ákveðið er að hækka barnabætur til þeirra sem hafa lágar tekjur, að lengja fæðingarorlofið í áföngum og veita nemendum í framhaldsskólum stuðning við kaup á námsgögnum. Öll þessi mál munu vonandi koma inn á sumarþinginu þannig að við sjáum skýrt hverjar breytingarnar eru í stjórnarháttum.

Það er þó ekki síður mikilvægt að auka stuðning við langveik börn, börn með hegðunarvandamál, geðraskanir og þroskafrávik og að grípa til aðgerða til að eyða biðlistum á þeim sviðum. Sett eru fram skýr ákvæði um aukið forvarnastarf bæði gegn kynferðislegu ofbeldi og fíkniefnaneyslu. Leita á nýrra leiða þar sem samstarf og stuðningur við fjölskyldur ungmenna sem og foreldraráðgjöf og fræðsla verður stórefld.

Varðandi málefnin hinna eldri er í stefnuyfirlýsingunni skýrt tekið fram að vinna á að einföldun almannatryggingakerfisins og styrkja stöðu aldraðra og öryrkja. Draga á úr tekjutengingum og skerðingum bóta í almannatryggingakerfinu. Hraða á uppbyggingu 400 hjúkrunarrýma fyrir aldraða, fjölga einbýlum og gera þjónustuna einstaklingsmiðaðri og efla sólarhringsþjónustu til að bæta hag aldraðra enn frekar.

Stefnuyfirlýsing nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, ríkisstjórnar velferðar og umbóta, boðar klárlega breyttar áherslur þar sem aukið jafnræði og jafnrétti milli landsbyggðar og höfuðborgar, milli karla og kvenna, eru höfð að leiðarljósi. Fagna ber nýjum áherslum varðandi bættan hag barna og ungmenna og barnafjölskyldna og breyttum áherslum varðandi málefni aldraðra og öryrkja.

Ég veit að þjóðin á eftir að sjá að hér er komin til valda öflug ríkisstjórn sem mun sameina kraftmikið atvinnulíf og öfluga velferðarþjónustu en þessar tvær stoðir samfélagsins þurfa og munu haldast í hendur.

Góðir landsmenn. Ég óska landsmönnum heilla og hlakka til samstarfsins á Alþingi um bættan hag lands og þjóðar.