134. löggjafarþing — 2. fundur,  31. maí 2007.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:48]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Það er sérstök ánægja fyrir nýjan þingmann að setjast á Alþingi á þessum sólríka degi. Ég vil af því tilefni óska nýrri ríkisstjórn, ráðherrum og þingmönnum velfarnaðar í störfum þeirra á komandi þingi.

Í valdatíð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafa verið stigin einhver mestu framfaraskref í íslensku þjóðfélagi. Hagvöxtur og kaupmáttur launa hafa aukist og traustur grunnur hefur verið lagður að efnahagslífi þjóðarinnar. Framsóknarflokkurinn stóð fast í fæturna í þeirri ríkisstjórn sem nú hefur látið af völdum. Stefna flokksins fyrir öflugu atvinnulífi um allt land og baráttan gegn atvinnuleysi var og er eitt af höfuðmarkmiðum Framsóknarflokksins. Það markmið tókst enda er atvinnuleysi lítið og samkeppnishæfni atvinnulífsins hefur aldrei verið betri. Með góðu atvinnuástandi hafa skapast tekjur til að gera enn betur í velferðarmálum. Þegar Framsóknarflokkurinn kom í ríkisstjórn fyrir 12 árum var staða ríkissjóðs veik og gripið hafði verið til niðurskurðar í velferðarkerfinu. Framsókn hafði þá skýru stefnu að auka fjármagn til velferðarmála og stuðla að enn frekari uppbyggingu heilbrigðiskerfisins sem látið hafði á sjá í tíð ríkisstjórnar íhalds og krata. Við þá stefnu var staðið.

Stefnuræða hæstv. forsætisráðherra verður ekki skilin öðruvísi en að meginstefna nýrrar ríkisstjórnar sé að halda áfram því góða starfi sem Framsóknarflokkurinn hefur lagt grunninn að. Stefnt sé að árangri áfram. En það er einnig ástæða til að hafa áhyggjur. Stefnuleysi og óvissa um hvernig halda eigi áfram því starfi sem unnið hefur verið að í fyrri ríkisstjórn blasir við. Þá hefur misvísandi skilningur og túlkun nýrrar ríkisstjórnar á eigin stefnuyfirlýsingu hvorki verið traustvekjandi né gefið þjóðinni tilefni til bjartsýni um að árangur náist áfram.

Staða Íbúðalánasjóðs er til að mynda í uppnámi. Eitt af meginmarkmiðum sjóðsins er að tryggja öllum landsmönnum, óháð búsetu, öruggt aðgengi að íbúðalánum. Það yrði köld vatnsgusa fyrir íbúa landsbyggðarinnar, sérstaklega íbúa Vestfjarða og í norðausturhluta landsins, ef sjóðurinn yrði lagður niður eða færður bönkunum. Framsóknarflokkurinn hefur staðið vörð um Íbúðalánasjóð og hefði aldrei samþykkt að hann yrði færður í einkavæðingarhendur Sjálfstæðisflokksins.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur einnig margoft ályktað að stefna skuli að frekari einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Því hafnar Framsóknarflokkurinn og um það var staðinn vörður í síðustu ríkisstjórn. Í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra kom fram að tekin verði upp blönduð fjármögnun á heilbrigðisstofnunum. Það verður aðeins skilið á þann veg að hinum efnameiri verði gert kleift að borga sig fram fyrir biðraðir. Ef af verður er sú leið aðeins skref í átt til einkavæðingar og aukins ójafnaðar í samfélaginu.

Skýrust, ef svo má að orði komast, í stefnuræðunni voru áform um einkavæðingu orkufyrirtækjanna. Stefna Framsóknarflokksins er og verður að Landsvirkjun verður ekki seld eða einkavædd. Nú reynir á kosningaloforð Samfylkingarinnar um að standa vörð um Landsvirkjun og orð margra þingmanna Sjálfstæðisflokksins í sömu veru.

Nú reynir einnig á fögur fyrirheit hæstv. fjármálaráðherra um að vinda ofan af því óréttlæti sem viðgengist hefur í þjóðlendumálunum. Það verður afar spennandi að fylgjast með hvernig ný ríkisstjórn tekur á þeim viðkvæmu málum.

Þjóðin þarf á stöðugu efnahagslífi að halda. Áform um að endurskoða eða kollvarpa því kerfi sem komið hefur verið á í landbúnaðinum eru aðeins til að skapa óvissu og óstöðugleika hjá bændum og framleiðslufyrirtækjum á landsbyggðinni. Það hefði Framsóknarflokkurinn ekki samþykkt.

Vonandi mun ný ríkisstjórn viðhalda góðum árangri Framsóknarflokksins og þeim markmiðum að minnka atvinnuleysi um allt land og koma í veg fyrir fólksflótta frá þeim byggðarlögum sem eiga undir högg að sækja. Hlutverk stjórnarandstöðunnar er að veita aðhald í þessum efnum og miðað við stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra og stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar á hún verðugt verkefni fyrir höndum.

Góðir Íslendingar. Auknum meiri hluta fylgir mikið vald. Því valdi er á auðveldan hátt hægt að misbeita með að takmarka eða stöðva umræður á hinu háa Alþingi. Um leið og ég ítreka velfarnaðaróskir mínar til nýrrar ríkisstjórnar minni ég á að auknum meiri hluta fylgir ekki bara vald heldur líka mikil ábyrgð. Vonandi verður ábyrgðin alltaf ofan á. — Ég þakka þeim sem hlýddu. Góðar stundir.