134. löggjafarþing — 2. fundur,  31. maí 2007.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:54]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Í stefnuræðu sinni setur forsætisráðherra fram sjónarmið nýrrar ríkisstjórnar. Athygli vekur að í upphafi ræðu sinnar fjallar hann um 12 ára árangursríka stjórnarsetu Framsóknarflokksins og hvað þau ár hafi skilað miklu og hversu farsæl sú ríkisstjórn hafi verið. Þetta samþykkir Samfylkingin þrátt fyrir að hafa allt frá stofnun flokksins og fram yfir síðustu kosningar hamrað á því hversu slæm þessi ríkisstjórn hafi verið og öll sú stefna sem henni fylgdi.

Meginsjónarmið sem koma fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og stefnuræðu forsætisráðherra eru í grunninn byggð á arfleifð fráfarandi ríkisstjórnar. Almenn góðmálafyrirheit sem eru í sjálfu sér þau sem allir geta fallist á sem markmið. Spurning er hins vegar hversu langt á að ganga, hversu hratt og hvaða aðferðum á að beita.

Forsætisráðherra og utanríkisráðherra halda því fram að verið sé að mynda frjálslynda umbótastjórn. Í hverju er frjálslyndið fólgið? Í hverju eru umbæturnar fólgnar? Frjálslynd umbótastjórn dregur úr heildarskattheimtu og eykur svigrúm einstaklinga og atvinnulífs til að lifa og starfa í friði án afskipta ríkisvaldsins en jafnar um leið velferðarhallann í þjóðfélaginu. Engin slík fyrirheit eru gefin.

Í stefnuræðu forsætisráðherra og þeim tillögum sem koma munu frá ríkisstjórninni felst viðurkenning á stefnumörkun Frjálslynda flokksins í málefnum innflytjenda. Þingmenn Frjálslynda flokksins vöruðu við því fyrir ári síðan að undanþága frá frjálsu flæði vinnuafls frá nýju Evrópusambandsríkjunum yrði ekki nýtt. Á það var ekki hlustað og þess vegna hafa komið til landsins þúsundir erlendis frá. Straumur innflytjenda og þeirra útlendinga sem hér dveljast tímabundið er ekki að minnka. 300 þúsund manna þjóð þarf að gæta hagsmuna sinna. Mikil fjölgun innflytjenda á stuttum tíma veldur lækkun launa og félagslegum undirboðum eins og dæmin sanna. Ég get þó tekið undir með forsætisráðherra þar sem hann segir að heildstæð framkvæmdaáætlun verði sett í málefnum innflytjenda sem hafi það markmið að betur verði tekið á móti erlendu fólki sem flyst til landsins og því auðveldað að verða virkir þátttakendur í íslensku samfélagi. Allt þetta er nauðsynlegt. Leggja verður áherslu á að það fólk sem hingað flytur aðlagist íslensku samfélagi sem best á sem skemmstum tíma en við eigum að vinna að því að það verði ein þjóð í landinu en ekki margar.

Ef vil vill vekur það helsta athygli sem ekki stendur í stjórnarsáttmálanum og engin fyrirheit eru gefin um. Þannig er það með landbúnað og sjávarútveg. Í þeim efnum verður kyrrstaða. Kvótakerfi og hátt verð til neytenda verður áfram. Stærsta ráni Íslandssögunnar, eins og einhverjir hafa orðað það í Samfylkingunni, verður viðhaldið. Gjafakvótakerfið verður óbreytt. Skiptir þar engu máli þó að Samfylkingin hafi heitið kjósendum sínum breytingu á þessu óréttlæti.

Á sama tíma og forsætisráðherra og utanríkisráðherra voru að stinga saman nefjum á Þingvöllum var stórum hluta verkafólks sagt upp störfum á Flateyri. Kvótaeigandinn ákvað að betra væri að selja kvótann, njóta fengsins, innleysa arðinn, og gera starfsfólk sitt atvinnu- og eignalaust. Ekki olli þetta forsætisráðherra eða utanríkisráðherra nokkru hugarangri.

Því miður er ekki verið að kynna stefnu frjálslyndrar umbótastjórnar heldur kyrrstöðustjórnar. Ég óska ríkisstjórninni þó alls velfarnaðar í störfum og lít á það sem hlutverk stjórnarandstöðu að styðja við þau góðu mál sem ríkisstjórnin hefur fram að færa og ætlast til þess sama af ríkisstjórninni gagnvart stjórnarandstöðu.

Íslenskt þjóðfélag býr yfir miklum auðæfum til lands og sjávar og miklum mannauði. Svigrúm ríkisstjórnarinnar til góðra verka er mikið. Forgangsatriðið á að vera og verður að vera að lagfæra þann velferðarhalla sem aldraðir og öryrkjar búa við. Þar verður að taka á af myndarskap. Ríkasta þjóðfélag í heimi á og verður að forgangsraða fyrir fólkið í landinu. Í því felast umbætur, í því felst frjálslyndi.

Góðir Íslendingar. Fyrir hönd Frjálslynda flokksins færi ég landsmönnum öllum sumarkveðjur. — Góðar stundir.