134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

stuðningur við innrásina í Írak.

[15:07]
Hlusta

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra. Nú er það kunnugt að fyrri ríkisstjórn lýsti yfir stuðningi við innrásarstríð í Írak og veitti þá um leið heimildir til að bandarísk stjórnvöld mættu nýta íslenska lögsögu, lofthelgi og flugvelli til flutninga í þágu þessara aðgerða í Írak.

Ég vil spyrjast fyrir um hvort þær heimildir hafi verið teknar aftur eða hvort til standi að afturkalla þær í ljósi þess harms sem ný ríkisstjórn lýsir yfir í nýjum stjórnarsáttmála vegna þessa stríðsrekstrar og í ljósi orða hæstv. utanríkisráðherra í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi sl. fimmtudag þar sem sérstaklega var rætt um þetta mál og þessi stríðsrekstur harmaður sérlega. Nú stendur hann auðvitað enn þá, eins og okkur hér er fullkunnugt, og full ástæða til að upplýsa Alþingi um það hver fyrirætlun ríkisstjórnarinnar í þessum efnum er, hvort þessar heimildir hafi verið teknar aftur eða hvort til standi að afturkalla þær, enda er þessi atbeini Íslands, þessi óbeini stuðningur getum við sagt, enn í fullu gildi á meðan stríðið stendur.