134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

sumarafleysingar á heilbrigðisstofnunum.

[15:24]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það sem hv. þingmaður fer hér yfir er vandi sem við þekkjum, hann er ekki nýr af nálinni og hefur verið til staðar í þeim stofnunum sem hv. þingmaður fór yfir um langa hríð. Þær aðstæður sem hv. þingmaður lýsir sýna okkur ljóslega hversu mörg verkefnin eru og margur vandinn þegar kemur að heilbrigðismálum. Ég hef lýst yfir að það skipti afskaplega miklu máli að menn líti á þetta til lengri tíma því eins og hv. þingmaður nefndi þá hefur vandinn hvað þetta snertir verið viðvarandi. Þetta er eitt af þeim verkefnum sem nýr heilbrigðisráðherra og ný ríkisstjórn fer yfir á næstu dögum og ekki bara á næstu dögum heldur næstu vikum, mánuðum og missirum því að í þessum málaflokki eru mörg verkefni og eðli málaflokksins er þannig að það munu alltaf verða ný verkefni eftir því sem líður á og margt af því kemur til af góðu. Þetta er bara eitt af þeim fjölmörgu verkefnum sem fram undan eru til að fara yfir og takast á við.