134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

Vaðlaheiðargöng.

[15:33]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Við höfum skipt svolítið um hlutverk, ég og hæstv. samgönguráðherra. Það er rétt, en þetta finnst mér vera það stórt mál að það sé algjörlega nauðsynlegt að fá fram strax hvar við stöndum í því, slík stóryrði voru látin falla fyrir kosningar um þetta stóra mál. Það eru ekki fáir á þessu svæði, eins og kom fram í máli mínu áðan, sem styðja verkið og það eru ekki fáir sem ég reikna með að hafi tekið þá ákvörðun að styðja Samfylkinguna út á þetta loforð. Og voru þó ekki mjög margir sem studdu Samfylkinguna í því kjördæmi sem hér um ræðir. Var fylgi hennar hvergi minna en einmitt þar.

Þetta finnst mér mikilvægt að komi fram, og komi þá inn í þingtíðindin að hæstv. samgönguráðherra hefur svikið það sem hann sagði við kjósendur fyrir kosningar.