134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

strandsiglingar.

[15:35]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég beini þeirri fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra hvort hann muni beita sér fyrir því að strandsiglingar verði teknar upp á þessu ári að undangengnu útboði eins og hæstv. ráðherra lofaði í kosningabaráttu sinni.

Það mun létta verulega á vegakerfi okkar, minnka mengun og auðvelda hæstv. ráðherra og ríkisstjórninni að lækka flutningskostnað til landsbyggðarfólks.

Í öðru lagi spyr ég hæstv. ráðherra hvað hann hyggist fyrir í samgöngumálum Vestmannaeyinga, bæði til framtíðar litið og í ljósi þeirra stöðu sem uppi er í samgöngumálum Vestmannaeyinga. Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að rannsóknum varðandi jarðgöng verði hraðað? Hyggst hann beita sér fyrir því að ný ferja verði keypt þegar í stað? Og hyggst hann beita sér fyrir því að auka tíðni ferða með Herjólfi á álagstímum? Þar horfir til vandræða og Vestmannaeyingar búa sannarlega við átthagafjötra og vinir þeirra sem vilja heimsækja þá til Eyja.