134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

strandsiglingar.

[15:36]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

(GÁ: Nú reynir á.) Hæstv. forseti. Margar spurningar hafa komið hér fram. Ég byrja bara aftan frá þar sem hv. þingmaður ræddi um Vestmannaeyjar og bættar samgöngur þangað. Eins og sá ágæti þingmaður sem hér stóð og aðrir hv. þingmenn vita vafalaust er vinna í gangi á vegum Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens sem felst í að fara yfir fyrirliggjandi gögn og fara ofan í það hvort ástæða sé til að fara í frekari rannsóknir.

Hv. þingmaður spyr út í ferju. Hv. þingmaður á að vita að inni á samgönguáætlun eru 1.600 millj., að mig minnir, á næstu tveimur árum til að byggja nýja Vestmannaeyjaferju. Það eru 3,2 milljarðar eyrnamerktir þar inni til að byggja nýja höfn í Bakkafjöru. Ég vona að það segi allt sem segja þarf um þetta eins og málið stendur í dag.

Varðandi hitt, að létta á vegakerfi landsins, hefur mín skoðun ekkert breyst hvað það varðar, það þarf að gera það. Það er ekki bara umhverfisvænt, það er líka umferðaröryggismál að létta flutninga á landsbyggðinni. En ég bið um aðeins lengri tíma en fimm eða sex daga í ráðherrastól til að fara að framfylgja þessum málum.