134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

umfjöllun um sjávarútvegsmál.

[15:45]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar, það er ástæða til að fá upplýst hjá hæstv. forseta hvernig hann hyggst standa að fundarstjórninni hér og þingstörfunum í ljósi m.a. og sérstaklega þeirrar uppákomu sem varð á þingsetningarfundi sl. fimmtudag þegar sá einstaki atburður varð að meiri hlutinn beitti hér afli sínu til að víkja til hliðar réttum þingskapalögum. Af því leiðir að það er engin sjávarútvegsnefnd starfandi á Alþingi í dag. Þetta var gert til að greiða fyrir pólitískum hrossakaupum stjórnarflokkanna um ráðherra- og ráðuneytahrókeringar og setur Alþingi satt best að segja í ákaflega ankannalegt ljós að samningar úti í bæ og áform framkvæmdarvaldsins um verkaskiptingu sín í milli valda því að þingstörf ganga ekki fyrir sig með eðlilegum hætti og ekki er fylgt settum þingskapalögum. Þetta endurspeglaðist svo í þeim vandræðagangi sem varð þegar Hafrannsóknastofnun var tilbúin með sína ráðgjöf og samkvæmt hefðum hefði sjávarútvegsnefnd Alþingis verið kölluð til og sett inn í það sem í vændum var í trúnaði áður en málið hefði verið gert opinbert. Það var a.m.k. sú skipan sem komst á meðan sá sem hér talar var formaður sjávarútvegsnefndar.

Í staðinn var reynt að boða fulltrúa þingflokka sem í sjálfu sér er góðra gjalda vert til að taka við boðskapnum, en engin fagnefnd þingsins með umboði er sem sagt starfandi á viðkomandi sviði og verður ekki næstu daga þrátt fyrir þær alvarlegu aðstæður sem þarna eru uppi. Hefði einhvern tíma þótt ástæða til að sjávarútvegsnefnd Alþingis væri til þegar boðaður er þorskveiðikvóti upp á 130 þús. tonn og þær fréttir berast að búast megi við því að viðmiðunarstofn þorsks fari niður í sögulegt lágmark á næsta ári. Sama staða gæti hæglega komið upp strax á morgun ef hér verður afgreitt til 2. umr. og nefndar frumvarp frá hæstv. viðskiptaráðherra sem ætti að ganga til efnahags- og viðskiptanefndar en hún er heldur ekki til og verður ekki næstu daga. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. forseta, líka í ljósi þess sem formenn þingflokka stjórnarliðsins gáfu í skyn sl. föstudag, að ef á þyrfti að halda yrði kosið í þessar nefndir — ég held að ég muni þau orð rétt, að það var orðað um það bil þannig að það yrði þá hægt að kjósa nefndirnar ef á þyrfti að halda — og nú þarf á að halda: Er hægt að ná samkomulagi um að síðar á þessum fundi í dag verði kosið í sjávarútvegsnefnd samkvæmt lögum og hún taki til starfa og taki fyrir hönd Alþingis við því að fjalla um ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og vera samráðsvettvangur af hálfu þingsins um erfiðar ákvarðanir sem fram undan eru í þeim efnum? Eða hvernig annars hyggst hæstv. sjávarútvegsráðherra eiga það samráð sem hann hefur boðað í ræðum að hann hafi áhuga á að verði?