134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

umfjöllun um sjávarútvegsmál.

[15:52]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er rétt að það var haldinn fundur í morgun fyrir fulltrúa þingflokka þar sem Hafrannsóknastofnun setti okkur sem þar mættum inn í ástand mála. Þessi fundur stóð frá 10 til 12. Að vísu þurftu allflestir þingmenn að fara frá meðan á þessum fundi stóð til þess að fara í nefndir og kjósa formenn og varaformenn þannig að það var svolítið rót en þó var fundurinn ágætur.

Mér finnst hins vegar að þessi staða sé mjög óþægileg að því leyti að skilaboðin sem við fáum hér í þinginu eru þau að núna eiga stjórnarandstæðingar að vera þægir og góðir og drífa þessi nýju þingsköp og breytingar á Stjórnarráðinu í gegn sem fyrst svo við getum haldið fundi í landbúnaðar- og sjávarútvegsnefnd. Það eru skilaboðin. Mér finnst þetta mjög óþægileg staða og mér finnst þetta ekki þinginu til sóma. Það hefði verið miklu eðlilegra að kjósa í nefndirnar sem þingsköp gerðu ráð fyrir. Þetta er það stórt mál og alvarlegt að annað er tæpast boðlegt. Það er verið að boða að það þurfi að minnka kvótann um þriðjung. Þetta er gífurlegt áfall fyrir okkur öll og mér finnst, virðulegur forseti, að það verði að vera einhver eðlilegur farvegur í þinginu fyrir svona stór mál. Það á ekki að vera eðlilegt að við þurfum að sitja undir skilaboðunum: Þegið þið, verið þið góð, komið málum í gegn sem fyrst hér, þingsköpum og stjórnarráðsbreytingum, af því að þá er hægt að kalla saman sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Mér finnst þetta ekki þinginu til sóma, virðulegur forseti, og vonast til að þessu ástandi linni sem fyrst án þess að stjórnarminnihlutinn sé beittur þvingunum.