134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

þingsköp Alþingis.

10. mál
[15:59]
Hlusta

Flm. (Arnbjörg Sveinsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, sbr. lög nr. 74/1992, 102/1993 og 68/2007. Flutningsmenn erum við formenn þingflokka stjórnarflokkanna, hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir og Lúðvík Bergvinsson.

Frumvarp þetta er lagt fram til samræmis við frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, sem þingflokkar stjórnarflokkanna hafa sameinast um að flutt verði og ráðgera að verði afgreitt á þessu þingi. Því frumvarpi hefur verið dreift á Alþingi og er þskj. 1 og mál nr. 1 á 134. löggjafarþingi og er á dagskrá í dag.

Með breytingum á þeim lögum verða ráðuneyti sameinuð og breytingar gerðar á heitum ráðuneyta vegna tilfærslu á málaflokkum milli þeirra. Skipan og heiti fastanefnda Alþingis hafa tekið mið af heitum ráðuneyta og skiptingu málaflokka milli þeirra og er í 1. mgr. 23. gr. þingskapa kveðið á um að vísa skuli frumvörpum, þingsályktunartillögum og skýrslum til nefnda eftir efni þeirra og hafa um það hliðsjón af skiptingu málefna í Stjórnarráðinu. Þingnefndir eru samkvæmt nýlegum breytingum á þingsköpum kosnar fyrir allt kjörtímabilið og því mikilvægt að nefndaskipan liggi fyrir þegar í upphafi kjörtímabils og miðist við það hvernig skipan Stjórnarráðsins er ætlað að verða. Með þessu frumvarpi verður því samræmi milli heita ráðuneyta og fastanefnda þingsins og málaflokka.

Þær breytingar sem gert er ráð fyrir eru í fyrsta lagi að efnahags- og viðskiptanefnd verði tvær nefndir sem beri heitin annars vegar efnahags- og skattanefnd og hins vegar viðskiptanefnd.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir að annars vegar muni félagsmálanefnd heita félagsmála- og trygginganefnd og hins vegar að heilbrigðis- og trygginganefnd muni heita heilbrigðisnefnd. Er þetta til samræmis við þau áform að almannatryggingahluti heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins flytjist til félagsmálaráðuneytisins.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að landbúnaðarnefnd annars vegar og sjávarútvegsnefnd hins vegar verði ein nefnd sem beri heitið sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd vegna áforma um að sameina sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Gert er ráð fyrir að lögin öðlist gildi samkvæmt 3. gr. frumvarpsins þegar þau hafa verið samþykkt á Alþingi þó svo að breytingar á Stjórnarráðinu taki ekki gildi fyrr en um áramót vegna þess sem fyrr segir um að nefndirnar eru kosnar fyrir allt kjörtímabilið og rétt þykir að koma strax á þeirri nefndaskipan sem ætlað er að gildi út kjörtímabilið.

Þó að breytingar þessar séu til komnar vegna breytinga á Stjórnarráðinu má segja að þær eigi sér ástæður í vinnu þingsins sjálfs því verkefni sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnda hafa verið minni en annarra nefnda síðustu ár en verkefni efnahags- og viðskiptanefndar hafa verið mikil og farið vaxandi. Skiptir í því sambandi ekki minnstu máli lagasetningar um fjármálastarfsemi og neytendamál sem verið hafa til meðferðar í þinginu að undanförnu. Ég hygg því að þessi breyting sé í sjálfu sér til bóta fyrir starfsemi þingsins.

Herra forseti. Ég legg til að mál þetta fari til allsherjarnefndar þegar 1. umr. um það er lokið. Ég vænti þess jafnframt að málið fái skjóta afgreiðslu í þinginu þannig að unnt verði að kjósa í hinar nýju nefndir á allra næstu dögum þannig að nefndaskipan þingsins verði fulllokið.