134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

þingsköp Alþingis.

10. mál
[16:26]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hv. þingmaður hljóti að hafa mismælt sig þegar hún sagði að málið kæmi hér inn fullmótað. Nema hv. þingmaður sé svona hrottalega gamansöm í dag að við eigum að taka þessu þannig.

Það er nú aldeilis sem það er fullmótað. Ég var að fara yfir það að í raun og veru er þetta ekki neitt nema ákvörðun um fjölda og nafn. Það er ekkert annað í þessu. Þess vegna er þetta allt saman tóm sýndarmennska. Allt efnisinnihaldið er eftir og á að koma í haust, þ.e. ráðuneytin og annað því um líkt.

Varðandi stjórnarráðsfrumvarpið þá er nú erfitt að aðskilja þetta tvennt. Hv. þingmaður sagði einmitt sjálf að þetta leiddi af breytingunum í stjórnarráðsfrumvarpinu. Nema hvað? Er þá ekki eðlilegast að þetta komi síðast? Jú, auðvitað, það er hin rétta röð á hlutunum sem ég var að vísa hér til.

Það er mjög dapurlegt að þessi mál skuli vera unnin með þessum hætti. Að þau skuli ekki vera vandlega undirbúin og faglega og að þetta sé einhvers konar heildarendurskipulagning á verkaskiptingu og skipulagi mála innan Stjórnarráðsins fyrst og þá í framhaldinu eftir atvikum þær breytingar sem Alþingi vill gera. Því þetta eru auðvitað mikilsverð mál.

Þegar ég var að lýsa fundinum sem við formenn flokka áttum hér þegar tveir, þrír, fjórir dagar voru eftir af þinginu fyrir þingslit í vor, þá kom þessi hugmynd og var lauslega reifuð. Eru menn tilbúnir til að skoða það að gera einhverjar breytingar þarna? Þá var auðvitað ekkert á bak við það. Það var engin útfærð vinna, engar tillögur sem hönd var á festandi og þess vegna koðnaði málið niður. Það hefur greinilega lítið þroskast síðan.

Hugmyndirnar t.d. um atvinnuvegaráðuneyti, sem lengi hafa verið uppi, hafa væntanlega byggt á því að um yrði að ræða eiginlegt atvinnuvegaráðuneyti. Atvinnumálin yrðu sem slík sameinuð í einu, stóru öflugu ráðuneyti. Það eru áhugaverðar hugmyndir. Við erum tilbúin að skoða það. En þetta er ekki neitt neitt. Þetta er bara bastarður í þeim efnum.

Hin hugmyndin hefur verið að stofna hér matvælaráðuneyti. Það gæti líka verið áhugaverður kostur. Að fara dönsku leiðina eins og Danir sem stofnuðu sitt fødervareministeriet og síðan er þar í danska þinginu fødervareudvalget. (Forseti hringir.) Það er bara önnur leið sem auðvitað kemur til greina að fara. En þetta er hvorki né.