134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

þingsköp Alþingis.

10. mál
[16:33]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil í nokkrum orðum lýsa skoðun minni á frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis sem hér er lagt fram af tveimur hv. þm., Arnbjörgu Sveinsdóttur og Lúðvíki Bergvinssyni, þingflokksformönnum flokka sinna.

Ég tek undir orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þar sem hann fór yfir breytingar á þingsköpum Alþingis, þær breytingar sem hafa verið gerðar á undanförnum árum og hafa allar verið unnar í samráði og samstarfi þingflokkanna. Ýmist hafa verið lögð fram frumvörp af þingflokksformönnum eða forsætisráðherra og í fullu samráði allra þingflokka.

Það sem mér finnst alvarlegast við þetta mál, hæstv. forseti, er að mér finnst sú lína sem á að vera mjög skýr á milli hins þrískipta valds, löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds, óljóst dregin. Línan á milli þessara stjórnsýslustiga á að vera mjög skýr. Hún er aftur og aftur að þurrkast út og mér finnst endurspeglast í því frumvarpi sem hér liggur fyrir að það gleymist að Alþingi er sjálfstæð stofnun, löggjafarstofnun, og á að lúta eigin vilja en ekki vera handbendi eða framkvæmdastofnun fyrir framkvæmdarvaldið.

Ég ætla ekki að leggja neinn dóm á þær tillögur sem hér liggja fyrir um hvernig eigi að skipta ráðuneytum og nefndum þingsins. Það er eingöngu það hvernig farið er í þetta mál. Í stjórnarmyndunarviðræðum á hverjum tíma getur það eðlilega verið hluti af stjórnarmyndun að breyta tilhögun Stjórnarráðsins. Örugglega hafa verið umræður í öllum flokkum á undanförnum árum um hvað þar megi betur fara eða hvort ástæða sé til að breyta ráðuneytunum. Það hefur verið gert í okkar flokki líka. Við höfum farið yfir það og hér á eftir verður örugglega gert betur hvað varðar frumvarpið um breytingu á Stjórnarráðinu. Ég ætla þó ekki að leggja neitt mat á það. Það eru eingöngu vinnubrögðin hvað þetta varðar.

Eðlilegast væri að hér kæmi fram frumvarp um breytingu á Stjórnarráðinu. Þegar það liggur fyrir hvernig ríkisstjórnin ætlar að haga sínum málum og þegar ljóst er hvernig skipta eigi verkum á milli þessara nýju ráðuneyta — það er heldur ekki sjálfgefið — væri langeðlilegast að þingið sjálft, að eigin frumkvæði, eins og verið hefur, stjórnarflokkarnir og stjórnarandstaðan, ynni að þeim breytingum sem við hér á Alþingi vildum gera til þess að stjórnsýslan öll, framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið, ynni sem best saman. En það er ekki gert.

Þar að auki skil ég ekki það bráðræði sem liggur í þessu frumvarpi um að koma nefndarskipaninni á núna, breytingunni. Að sönnu segir í lögum um þingsköp Alþingis um breytingar sem voru gerðar núna í lok síðasta þings að kjósa skuli til allra nefnda til fjögurra ára en það er svo sannarlega hægt að breyta því og Alþingi hefur sjálft afl til þess að breyta nefndaskipan sinni. Það tel ég að hefði átt að gera. Þegar þing kemur saman í haust og ljóst er hvernig ráðuneytin verða skipuð ætti Alþingi sjálft að fara í þessa vinnu og þá hefðu þær breytingar tekið gildi um áramót rétt eins og breytingarnar sem eiga að taka gildi hjá Stjórnarráðinu. Þetta finnst mér vera hin eðlilega leið, hin eðlilegu vinnubrögð, með tilliti til þess að vanda skal til verka og gleyma ekki hvert valdsviðið er.

Ég vil líka taka undir önnur orð Steingríms J. Sigfússonar og gera að mínum undir þessum merkjum: Hér ríkir oftar en ekki: Við ráðum. Það er meiri hlutinn sem ræður. Vissulega búum við í lýðræðisþjóðfélagi þar sem meiri hlutinn ræður. En það er líka til list sem heitir samræðulist og sem Samfylkingin fór með inn í kosningabaráttuna sem eitt af höfuðmálum sínum sem átti að gera að breytingu hér í Alþingi, að ná fram samræðustjórnmálum, sem ég trúði í einfeldni minni að fæli í sér að ná betri samvinnu og samkomulagi á milli stjórnar og stjórnarandstöðu og hugsanlega að fara til baka til þeirra vinnubragða að stjórnarandstaðan hefði eitthvað með stjórn þingsins að gera, eins og var hér á árum áður, að hugsanlega væri með samræðustjórnmálum, sérstaklega í ljósi þess mikla meiri hluta sem nú er á Alþingi, hægt að treysta stjórnarandstöðunni, þótt ekki væri nema fyrir varaformannsembætti í einstöku nefndum. En það var ekki gert.

Valdið er vandmeðfarið og það á eftir að reyna á það hér á næsta kjörtímabili, eða svo lengi sem þessi ríkisstjórn situr, að það er jafnvel enn þá vandmeðfarnara að hafa svo sterkan meiri hluta og þurfa ekki að hlusta á stjórnarandstöðuna, að verða ekki að beita sig þeim aga að taka tillit til sjónarmiða annarra og hlusta, hvort sem stjórnarmeirihlutinn tekur tillit til gagnrýni eða gerir skoðanir minni hlutans að sínum. Meiri hlutinn ætti a.m.k. að hlusta.

Ég tel, hæstv. forseti, eins og ég sagði áðan að það hefði átt að byrja á breytingu á lögum um Stjórnarráðið og geyma breytingar á þingsköpum til haustsins, láta þær breytingar ekki taka gildi fyrr en um næstu áramót og kjósa nú samkvæmt þeim lögum sem eru í gildi. Ég hvet hæstv. ríkisstjórn og meiri hlutann á Alþingi til að fara vel með valdið og taka tillit til stjórnarandstöðunnar og ólíkra sjónarmiða.