134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

þingsköp Alþingis.

10. mál
[16:57]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki var þetta málefnalegt svar. Það hefur farið svo fyrir hæstv. iðnaðarráðherra einu sinni sem oftar að hann leitar í fortíðina, fortíð sína í öðrum pólitískum flokkum.

Hann má gera það. Ég er hingað komin til þess að líta til framtíðar. Ég kæri mig lítið um hvað gerðist 1938, 1978 eða 1998, hæstv. iðnaðarráðherra, ég vil vita hvað á að gerast á árinu 2008. Þá er okkur sagt að eigi að breyta skipan Stjórnarráðsins, og ég spyr: Af hverju hafa samfylkingarmenn ekki döngun í sér til þess að koma hér og lýsa skoðun sinni á því frumvarpi sem hér er til umræðu og á þeirri gagnrýni sem hefur verið sett fram á málsmeðferðina?