134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

þingsköp Alþingis.

10. mál
[17:05]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Síst af öllu vildi ég neita hv. þingmanni um að koma í ræðustólinn.

Málið sem hér er til umræðu varðar þingsköp Alþingis. Stjórnarráðsfrumvarpið er næsta mál á dagskrá og þar mun ég gera grein fyrir því sem að því lýtur. Þingskapafrumvarpið er mjög einfalt mál. Það gerir ráð fyrir minni háttar breytingum á nefndaskipan Alþingis sem leiðir af breytingum á Stjórnarráði Íslands sem eru flestum vel kunnugar vegna þess að þær hafa verið til umræðu í mörg ár. Það hefur verið til umræðu í mörg ár í þinginu að skipta upp efnahags- og viðskiptanefnd vegna þess hversu vinnuálagið er ójafnt í nefndum þingsins. Það hefur líka verið talað um það í mörg ár að lítið væri að gera í landbúnaðarnefnd og það væri ekki óeðlilegt að hún sameinaðist sjávarútvegsnefnd eins og ætlunin er að gera með þessum tillögum. Síðan er verið að breyta heitum á heilbrigðis- og félagsmálanefndum til samræmis við það sem alkunna er að ætlunin er að flytja verkefni á milli þessara tveggja ráðuneyta og þetta er breyting til samræmis.

Þetta er allt og sumt sem um er að ræða í þessu litla frumvarpi um þingsköp. Þeir sem hafa kvartað undan því að ekki sé búið að kjósa hér í tilteknar þingnefndir ættu kannski að sjá sóma sinn í því að hraða því að hægt sé að kjósa í nefndirnar með því að greiða fyrir því að þetta frumvarp verði afgreitt. Þannig stendur þetta mál.

Ég skal síðan ræða breytingar á Stjórnarráðinu, það sem í því frumvarpi felst og ýmislegt fleira sem um það mál má segja þegar málið kemst á dagskrá, en það kemst náttúrlega ekki á dagskrá fyrr en umræðunni um þetta tiltekna mál er lokið.