134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[17:46]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Af hverju ekki atvinnuvegaráðuneyti? Það er svo risavaxið, er sagt hér. En af hverju voru þá Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin sérstaklega að álykta um að það ætti að setja upp atvinnuvegaráðuneyti? Væntanlega af því að þessum flokkum þótti það skynsamlegt. Núna er sagt að það sé risavaxið og ómögulegt. Það er mjög skrýtið hvernig hér er að verki staðið, virðulegur forseti.

Varðandi leynilistann og reglugerð um það hvaða verkefni eigi að falla undir hvaða ráðuneyti hlýtur maður að spyrja sig: Af hverju stendur þessi sérstaka tala í umsögn fjármálaráðuneytisins með frumvarpinu? Að tilfærsla verkefna snerti samtals 41 starfsmann í stjórnsýslunni? Það hlýtur að vera eitthvað á bak við þessa tölu.

Það er búið að upplýsa ýmislegt sem er í farvatninu. Annað er óljóst. Það er lágmarkskrafa að við þingmenn fáum að vita hvað er á bak við þessa tölu, 41 starfsmann í stjórnsýslunni. Við hljótum að eiga kröfu á að vita hvaða verkefni eiga að fara undir hvaða ráðuneyti. (Forseti hringir.)