134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[18:31]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að mörgu leyti ágæta ræðu og margt athyglisvert sem kom fram í máli hennar. Ég vil þó vekja athygli á því að Framsóknarflokkurinn sat í ríkisstjórn í tólf ár og ég man ekki til þess að hann hafi staðið fyrir fækkun ráðuneyta eða breytt Stjórnarráðinu á þeim tíma, þrátt fyrir að næg tækifæri hafi gefist.

Kjarninn í þessum breytingum er í mínum huga sá að í stað þess að engar breytingar verði gerðar á Stjórnarráðinu nema að undangengnum lögum er í reynd verið að gefa ráðherrum eða framkvæmdarvaldinu tækifæri til að skipuleggja sig sjálft að einhverju leyti og leggja sig niður, þ.e. að ráðherrunum gefist færi á að fækka sér. Það er í raun umboðið sem hér er verið að leggja til, að þingið leyfi að framkvæmdarvaldið hafi meira um eigið skipulag að segja.

Ráðuneyti verða ekki lögð niður, það er klárt, nema með lögum. Ráðuneytum verður ekki fjölgað, það er klárt, nema með lögum. En það er hægt að sameina þessi ráðuneyti og þau fá væntanlega ný nöfn í kjölfarið. Í reynd er því verið að taka þetta litla skref og ég get tekið undir það með ýmsum sem segja að taka hefði mátt stærri skref. En stærri skref verða ekki tekin í þessari umferð. Vel má vera að fleiri skref verði tekin í framhaldinu en mér finnst sjálfum ágætt að framkvæmdarvaldið fái heimild til að fækka ráðherrum. Það er í reynd heimildin sem við leggjum til að veitt verði. Það er engin heimild til þess að fjölga ráðherrum eða neitt í þá veruna, fyrst og fremst að fækka þeim og leyfa þeim að endurskipuleggja sig. Ég held að það sé skynsamlegt.