134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[18:39]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Frú forseti. Í framsöguræðu sinni fjallaði forsætisráðherra réttilega um með hvaða hætti og hvernig staðið var á sínum tíma að setningu laga um Stjórnarráð, hvernig sá merki laga- og stjórnmálamaður, Bjarni Benediktsson, stóð að því, fyrst sem þingmaður í stjórnarandstöðu. Honum fannst hentast að hafa hlutina þannig að þingið kæmi að og hefði með að gera það hvernig hlutirnir þróuðust og breyttust.

Það sem við erum að fjalla um núna eru í sjálfu sér ekki stórir hlutir. Þá er ég að tala um það sem fjallað var um í 1. gr., a til e-lið sem varðar m.a. Hagstofu Íslands, þar sem verið er að breyta stöðu hennar, og síðan ráðuneytin.

Ég hjó eftir því sem hæstv. forsætisráðherra sagði í framsöguræðu sinni, þ.e. að sameining sjávarútvegsráðuneytis og landbúnaðarráðuneytis væri til einföldunar og sumir hefðu viljað ganga lengra. Ég er einn þeirra sem hefðu viljað ganga miklu lengra. Ég er ekki sammála hv. þm. Lúðvík Bergvinssyni um að það skipti ekki máli hvort ráðherrar eru 8, 9 eða 10. Því færri, þeim mun betra. Ég hygg líka að menn þurfi að leggjast yfir það og fara í virkilega skoðun á því hvort við séum ekki í raun með allt of mörg ráðuneyti og hvort ekki væri æskilegra og leiddi til meiri skilvirkni að fækka ráðuneytum.

Eins og menn hafa komið inn á, hver þingmaðurinn á fætur öðrum í þessari umræðu, er spurningin í fyrsta lagi um hvort ekki eigi að taka upp eitt atvinnumálaráðuneyti. Ég hygg að það væri skynsamlegt. Hæstv. forsætisráðherra sagði í framsöguræðu sinni að með því að sameina sjávarútvegsráðuneytið og landbúnaðarráðuneytið væri horfið til minni ríkisafskipta. Ef hægt væri að sameina ráðuneyti í eitt atvinnuvegaráðuneyti gæti það horft í átt til minni ríkisafskipta. Það væri að sjálfsögðu af hinu góða.

Ég velti því fyrir mér hvað hæstv. forsætisráðherra á við þegar hann talar um minni ríkisafskipti af sjávarútveginum og landbúnaðinum. Er verið að tala um að leggja af kvótakerfi í sjávarútvegi? Er verið að tala um að leggja af kvótakerfi í landbúnaði? Á að afnema innflutningshöft? Er verið að tala um að afnema opinberar verðákvarðanir? Er spurningin sem forsætisráðherra er að tala um hvað þessar atvinnugreinar varðar að gera markaðskerfið raunverulega virkt? Sé það vilji hans mun ég heils hugar standa með honum í því. Ég vænti þess að það standist sem hann sagði í þessu efni, sem að vísu þarfnast nokkurrar skýringar við: Með hvaða hætti má búast við því að með sameiningu sjávarútvegsráðuneytis og landbúnaðarráðuneytis sé stefnt í átt að minni ríkisafskiptum? Að hvaða leyti verða ríkisafskiptin minni, í hvaða þáttum?

Hæstv. forsætisráðherra vék að því að aðrar breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands mættu bíða haustsins. Það er nú einu sinni þannig, varðandi þetta frumvarp sem við erum að fjalla um, að það hefði mátt bíða haustsins í heilu lagi vegna þess að þau atriði sem um er fjallað í 1. gr., lið a til e, taka ekki gildi fyrr en þann 1. janúar 2008. Það er ærinn tími til að afgreiða þá hluti sem hér er um að ræða á þeim tíma á haustþingi í staðinn fyrir að taka þetta sérstaklega til meðferðar. Þá hefði líka mátt koma hlutum þannig fyrir að þau atriði sem hæstv. forsætisráðherra gaf fyrirheit um, þ.e. aðrar breytingar og fyllri á lögum um Stjórnarráð Íslands, fylgdu með. Þetta hefði mátt flytja sem eitt frumvarp í samfellu í staðinn fyrir að slíta málið með þessum hætti úr samhengi.

Það er ljóst að þingmenn Frjálslynda flokksins vilja greiða þessu frumvarpi leið í gegnum þingið og telja að það í höfuðatriðum til bóta. Það er þó eitt atriði sem við stöldrum við og veltum fyrir okkur og teljum að sé nokkuð varhugavert en það er f-liður 1. gr., þ.e. spurningin um að heimila að ráðuneyti verði sameinuð með úrskurði forseta Íslands. Það er spurning hvort það horfir til bóta að þau atriði fari úr höndum þingsins og verði einfaldlega á höndum ríkisstjórnar og forseta hverju sinni. Sjálfur tel ég að það sé varhugavert og ekki eigi að hrapa að slíkri ákvörðun enda er ekki nokkur þörf á að gera það með þeim hætti.

Um atriðin sem varða starfsmenn í Stjórnarráðinu í 3. og 4. gr. er í sjálfu sér allt gott að segja en ástæða til að kalla til forustumenn í samtökum þeirra til að heyra þeirra sjónarmið. Væntanlega gerist það í allsherjarnefnd við meðferð á málinu.

Höfuðatriðið í þessu máli er að hér er hreyft við breytingum á lögum á Stjórnarráði Íslands sem var löngu tímabært. Þess vegna er engin ástæða til að setja á langar ræður um með hvaða hætti og hvernig hlutirnir hefðu getað orðið eða hvort fiskur liggi undir steini. Það er ekki nokkur ástæða til þess að ætla að svo sé.

Varðandi útgáfu reglugerða er það hárrétt sem hæstv. forsætisráðherra benti á, að reglugerðarheimildir eru að sjálfsögðu í höndum ráðherra hverju sinni. Alþingi kemur ekki að því en reglugerðir verða ekki gefnar út nema þær hafi stoð í lögum.

Virðulegi forseti. Við í Frjálslynda flokknum munum greiða fyrir því að þetta frumvarp geti fengið hraða og góða afgreiðslu hér á þessu þingi.