134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[18:47]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsætisráðherra vitnaði til þess mæta stjórnmálamanns og lagaspekings Bjarna Benediktssonar og ég tók undir hér í dag að hann hefði verið einn af spökustu lögmönnum þessarar þjóðar, og hvort sem hann talaði í stjórn og stjórnarandstöðu var tekið tillit til málflutnings hans. Af því að það henti hæstv. forsætisráðherra að minnast á þennan merkilega mann og bera þetta skyndiverk þeirra frá Þingvöllum saman við það sem Bjarni Benediktsson lagði til árið 1958 hér í þinginu segir, með leyfi forseta, í greinargerð þingsályktunar Bjarna Benediktssonar eftirfarandi:

„Æskilegast er, að þær umbætur verði lögfestar með samráði og samvinnu ríkisstjórnar og stjórnarandstæðinga, svo að líkur verði fyrir meiri festu í þessum efnum en verið hefur,“ segir hann. Síðar segir hann í ræðu sinni:

„Þetta er áreiðanlega þýðingarmeira mál en í fljótu bragði skyldi ætla“ — sem sé breytingar á Stjórnarráðinu — „og mál sem mikilsvert er, eins og sum fleiri, að menn reyni að koma sér saman um að leysa án flokkságreinings. Það eru líkur til þess í lýðræðisþjóðfélagi, að flokkar skiptist á um völd, einn hafi völdin í dag, annar á morgun. Það er ákaflega mikilsvert, ef þeir sem nokkra reynslu hafa af þessu og þekkja af eigin raun, hverjir ágallar eru, gætu komið sér saman um nýtt og betra skipulag, sem byggt væri á þeirri reynslu, sem fengin er.

Það hafa allir stjórnmálaflokkar jafnan hag af því, að stofnun slík sem Stjórnarráðið sé hæf til að sinna starfi sínu og hún sé í uppbyggingu þannig, að hún verði sá bakhjallur góðrar stjórnar í landinu, sem hún þarf að vera, og geti leyst sín verkefni vel af hendi með sem minnstum mannafla, og þar með minnstum kostnaði. Þess vegna held ég, að það sé líklegra til árangurs í þessu, að tekið væri upp um lausn þessa máls samstarf allra flokka.“

Það er eins og hæstv. forsætisráðherra reyndi í mars sl. að hafa hér í frammi við þáverandi stjórnarandstöðu og var samkomulag um í þeirri ríkisstjórn sem ég sat í með hæstv. forsætisráðherra. En nú keyrir hæstv. forsætisráðherra breytingarnar áfram af slíkum hraða og með svo óljósum hætti að þingheimur veit í rauninni ekkert hvað um er að vera. Það er búið að margfara yfir það í dag að verið er að höggva upp Stjórnarráðið hér og þar í snepla til þess að búa til ráðuneyti. Eini ávinningurinn sem virðist vera í fækkun er blessuð litla Hagstofan. Hún verður að stofnun en ekki að ráðuneyti. Síðan er farið, eins og ég hef rakið hér í dag, í handahófskenndar breytingar, bæði með landbúnaðarráðuneyti, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, sem var auðvitað lítið ráðuneyti fyrir og er varla tveggja manna verk. Það er auðvitað ljóst að í samskiptum þessara flokka á Þingvöllum hefur það verið val Sjálfstæðisflokksins að hirða til sín fleiri verkefni í Stjórnarráðinu en láta Samfylkinguna sitja uppi með sama fjölda ráðherra. Þetta er svona skipting, pólitísk hrossakaup sem eiga sér stað undir þeim kringumstæðum að ríkisstjórn er að fæðast.

Þess vegna verð ég að ítreka: Ólíkt var skynsamlegri hugsun Bjarna Benediktssonar sem sá það fyrir sér að mikilvægt væri að allir flokkar kæmu að slíkri breytingu. Sannleikurinn er auðvitað sá að ríkisstjórnir koma og fara og flokkar sitja í ríkisstjórn í dag og ekki á morgun, og þannig mun lífið halda áfram. Einhvern tímann verður Sjálfstæðisflokkurinn utan ríkisstjórnar, ég trúi að völd hans vari ekki hér að eilífu og ráðríki í Stjórnarráðinu þegar þannig er unnið, þegar þannig er skipt um skoðun, eins og hæstv. forsætisráðherra sem leit á þetta sem samkomulagsmál í mars. Nú er það bara einkamál tveggja manna, hans og hæstv. utanríkisráðherra. Og þau hafa ekki enn klárað málið eins og glöggt hefur komið fram í ræðu hans.

Hæstv. forsætisráðherra segir hér að hann sé að stíga fyrsta skrefið. Þetta er mjög undarlegt skref. Síðan finnst honum undarlegt að menn geri athugasemdir, finnist þetta einkennileg vinnubrögð og geri veður út af þessu, eins og hann orðar það, hæstv. forsætisráðherra. Ég er ekkert hissa á því miðað við þau sinnaskipti sem hafa orðið.

Ég verð að segja að mér líst mjög illa á margt í þessu og mér finnst kastað til hendi. Ég verð að segja það sem alþingismaður á löggjafarþingi þjóðar minnar að ég vil auðvitað við þessar breytingar fá það uppgefið hvað um er að vera. Hvert eru málaflokkarnir að fara? Hvað ætlar ríkisstjórnin sér í þeim efnum? Ég hef sjálfur tekið sæti í þingnefnd og það er mjög óljóst hver verkefni þeirrar nefndar verða.

Það hendir hins vegar hæstv. forsætisráðherra að snupra mig hér, saklausan manninn, af því að ég er ekki alveg sammála honum í þessu, og ber á mig afturhaldssemi. Ég skal segja hæstv. forsætisráðherra að það mun koma í ljós að mörgum manninum í hans flokki mun vera þannig skipað að hann verður mér nokkuð sammála um það sem ég er að tala. Honum mun finnast að það sem við höfum verið að gera í ríkisstjórn sem hæstv. forsætisráðherra stýrði einnig, endurskipuleggja landbúnaðinn, stofnanakerfi hans — ég hef nefnt hér landbúnaðarháskólana sem við höfum byggt upp sem atvinnuvegaháskóla og talið eðlilegt að heyrðu undir landbúnaðarráðuneytið og atvinnuveginn. Inn í landbúnaðarháskólana færðum við Rannsóknastofnun landbúnaðarins með öllum þeim vísindamönnum sem landbúnaðinum tilheyra. Það kann að vera að áhyggjur sæki að mörgum sjálfstæðismanninum við þessar breytingar alveg eins og að mér. Auðvitað get ég látið mér detta það í hug eins og öðrum að landbúnaðarháskólarnir fari til menntamálaráðuneytisins.

Reynslan hræðir. Skólar annarra atvinnuvega, hvort sem það er sjávarútvegsins eða iðnaðarins, hafa nánast dáið inni í hítinni í menntamálaráðuneytinu. Þeir hafa ekki verið þau óskabörn sem hafa verið klædd upp og farið með þau eins og ber. Þess vegna óttast margur aðsteðjandi breytingar á landbúnaðarháskólunum sem hafa verið í miklum vexti, hæstv. forsætisráðherra. Ég hygg að þegar ég byrjaði sem landbúnaðarráðherra hafi verið í þessum tveimur skólum u.þ.b. 150 manns. Þar er núna hátt á fimmta hundrað manns við nám. Þessar skólastofnanir eru orðnar mjög virtar vísindastofnanir í miklu samstarfi. Það er ekkert óeðlilegt að áhyggjur sæki að mönnum. Litlir háskólar eiga rétt á sér. Það eiga ekki allir háskólar að vera í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Litlir, fallegir háskólar gegna mikilvægu hlutverki á landsbyggðinni. Kannski hefur íslenska þjóðþingið og ríkisvaldið verið nískt við það að gefa byggðunum þau tækifæri sem í háskólunum eru fólgin.

Við sjáum það vissulega að Háskólinn á Bifröst blómstrar í dag. (Gripið fram í.) Menn velta fyrir sér hvort það sé ekki fyrst og fremst vegna þess að hann er sjálfseignarstofnun. Atvinnulífið kemur verulega að honum. Þess vegna sagði ég hér við stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra, og bað hæstv. landbúnaðarráðherra að fara yfir það, ef þessar breytingar væru óhjákvæmilegar hvort ekki gæti verið heppilegt að skoða það form hvað landbúnaðarháskólana varðar að þeir yrðu einnig sjálfseignarstofnanir tengdir sínum atvinnuvegi áfram þótt þeir færu þessa leið.

Ég vil með málefnalegum hætti vekja athygli hér, hæstv. forsætisráðherra, á þeirri hættu. Mér þykir vænt um þessa skóla. Þeir eru landbúnaðinum mjög mikilvægir. Þess vegna er það ekki af neinni afturhaldssemi eða annarlegum sjónarmiðum sem ég velti upp þessum rökum og bið hæstv. landbúnaðarráðherra og hæstv. ríkisstjórn, þar með hæstv. forsætisráðherra, að fara vel yfir þessa hluti áður en gripið er til þessara ráða. Þá hef ég sagt: Sé þetta óhjákvæmilegt getur sjálfseignarformið, eins og Bifröst þrífst undir, verið eitthvað sem við eigum að huga að.

Ég þarf ekkert, hæstv. forsætisráðherra, að heita afturhaldsmaður þótt ég sé á sömu skoðun og Sjálfstæðisflokkurinn var um 1990 hvað varðar landgræðslu og skógrækt. Ef það er ætlan forsætisráðherra hefur hann ekki greint frá því. Ef það er ætlan hans og það samkomulag sem hann gerði með hæstv. utanríkisráðherra á Þingvöllum að fara með landgræðsluna í Gunnarsholti sem starfar um allt land og Skógrækt ríkisins undir umhverfisráðuneytið er hann að brjóta blað í sögu síns flokks. Sannarlega hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið þeirrar skoðunar að þessar miklu stofnanir séu framkvæmdastofnanir og eigi að heyra undir landbúnaðarráðuneytið, og skógrækt um allan heim er verkefni landbúnaðarins. Þess vegna hef ég líka beðið hæstv. landbúnaðarráðherra að fara vel yfir þessi rök.

Ég vona auðvitað, hæstv. forsætisráðherra, að þetta sé ekki á dagskrá. Þetta væri skemmdarverk. Það eru þúsund skógræktarbændur á Íslandi á dag. Það er mikill uppgangur, og nýr, í þessari grein sem var settur í gang í ágætri ríkisstjórn sem við unnum saman í. Ég er fyrst og fremst með varnaðarorð að biðja menn um að fara yfir þetta með málefnalegum hætti en ekki með neinar úrtölur eða afturhald.

Ég heyri líka talað um það jafnvel að búvörusamningarnir eigi að fara inn í fjármálaráðuneytið. Svona ganga þessar sögur sem maður heyrir (Forseti hringir.) hér á göngunum, hæstv. forsætisráðherra. Þess vegna er auðvitað ólíkt að farið en þegar hinn mæti Bjarni Benediktsson lagði til að það yrði eitt þing, þing samkomulags, á milli allra stjórnmálaflokka sem færu (Forseti hringir.) yfir það vandasama verk að endurskipuleggja Stjórnarráðið.

(Forseti (ÞBack): Forseti biðst afsökunar, en getur þingmaðurinn upplýst um hversu langa ræðu hann eigi eftir og hvort hann ætli að nota tíma sinn?)

Allan þann tíma sem ég á eftir mun ég nýta, hæstv. forseti.

(Forseti (ÞBack): Þá ætla ég að óska eftir að hv. þingmaður geri hlé á ræðu sinni því að nú verður gert kvöldverðarhlé. Tekur þá ræðumaður til við ræðu sína og lýkur henni þegar fundi verður haldið áfram.)