134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[20:10]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra áfram: Nú hafði hann náð því mikla markmiði að taka inn í bú sitt stærsta stjórnarandstöðuflokkinn með samtals 18 þingmönnum sem virðist þá hafa fallist á þessa meðferð. Framsóknarflokkurinn var áður í ríkisstjórn. Hvers vegna datt ekki forsætisráðherra í hug að það væri myndarlegt og líkt Bjarna Benediktssyni að leita eftir samráði allra þingflokka um þessa gríðarlegu breytingu? Í rauninni eins og hér hefur komið fram liggur ekkert á málinu. Ég fagna því að heyra að hæstv. forsætisráðherra segir það sem við höfum verið að segja í dag, að þetta er hálfunnið verk. Auðvitað hafa flokkarnir ekki náð niðurstöðu í málinu. Það er hæstv. forsætisráðherra búinn að viðurkenna núna.

Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að ætla að fara enn betur yfir þetta með landbúnaðarháskólana og hvernig það gerist þá. Ég tek það alveg skýrt fram, hæstv. forsætisráðherra, að landgræðsla og skógrækt hefur samkvæmt stefnumörkun í Sjálfstæðisflokki, sem ég hef dáðst að hvað það varðar, verið alveg skýrt landbúnaðarmál. Hér börðust þeir með kjafti og klóm þegar umhverfisráðuneytið var stofnað og við vorum hér ungir menn, ég og hæstv. forsætisráðherra, gegn því að þessar stofnanir rynnu inn í umhverfisráðuneytið. Umhverfisráðuneytið er verndarráðuneyti. Þetta eru framkvæmdastofnanir. Það getur vel verið að gamlir birkiskógar geti heyrt undir umhverfisráðuneyti en ég bara þakka þau orð hæstv. forsætisráðherra að hann ætlar að fara vel yfir þessi mál um leið og ég harma það, sem ég hef gert í dag, hvers lags offors þetta er, hvers lags ráðríki og hvers vegna ekki sé hægt að kynna málið í heild sinni, bæði fyrir stjórnarliðum sem mér finnst að viti takmarkað um málið og ég tala ekki um líka stjórnarandstöðunni. (Forseti hringir.) Öllum ber okkur að bera virðingu hvert fyrir öðru á hinu háa Alþingi, hæstv. forseti.