134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[20:13]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kann að vera að Sjálfstæðisflokkurinn hafi haft þau áhrif þá að landgræðsla og skógrækt fóru ekki undir umhverfisvernd. Það kann að vera að það hafi verið hlustað á stjórnarandstöðuna þannig að ég minnist þeirra átaka sem þá voru. Ég minni hæstv. forsætisráðherra á þá umræðu og ég hygg að það hafi verið með þeim hætti.

Í lófa lagið, segir hæstv. forsætisráðherra, að styðja mál, kallaði hér til fundar þar sem skýrt er frá þessari vegferð án þess að segja, hæstv. forsætisráðherra, hvað í pakkanum væri. Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki skýrt frá því enn þá hvaða stórbreytingar eru í nánd. Það hefði auðvitað verið allt annað mál því að sannarlega er það svo að það er ekki verið að stíga neitt rosalega stórt skref, hæstv. forsætisráðherra, það er verið að sníða svuntu í kringum eina ríkisstjórn, það er bútasaumur til að koma ráðherrum fyrir í litlum hornum í ráðuneytum. Það er ekki verið að fara skipulega í það mál sem allir flokkar hafa ályktað um. Þetta er með allt öðrum hætti.

Allir flokkar eru sammála um að þeir vildu sennilega flestir að hér yrðu 10 ráðuneyti, nokkurn veginn jafnvíg að stærð, jafnstór að verkefnum, og fullt verkefni fyrir hvern ráðherra. Við erum auðvitað undrandi á því að það sé bara litla Hagstofan sem ekki er ráðuneyti lengur og fari síðan að fitla við hitt með óskipulegum hætti og hæstv. forsætisráðherra ætlar reyndar að taka sér tíma fram að næstu jólum. Gleðileg jól, hæstv. forsætisráðherra.