134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[20:19]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er það þannig þegar menn gera breytingar í okkar menntakerfi þá hljóta menn að vanda sig, hvort sem það varðar landbúnaðarháskóla eða aðrar menntastofnanir.

Ég get ekki tekið undir það að hv. þingmaður hafi ekki verið með neina fordóma gagnvart menntamálaráðuneytinu og því fólki sem þar starfar. Vegna þess að í ræðu sinni hélt hann því fram að tilteknar menntastofnanir hefðu beinlínis dáið undir stjórn þessa ráðuneytis. Og það að tala um ráðuneyti sem einhverja hít er náttúrlega ekki orðbragð sem menn eiga að taka sér hér um það metnaðarfulla starf sem átt hefur sér stað á sviði menntamála og hv. þingmaður hefur verið þátttakandi í að byggja upp.

En hv. þingmaður svaraði ekki spurningu minni. Ég óska eftir því að hann geri það. Ef hv. þingmaður væri samkvæmur sjálfum sér og talaði fyrir því að einn atvinnuvegaskóli yrði tekinn út úr yfirstjórn menntamála og yfir í landbúnaðarráðuneytið, er hann þá ekki þeirrar skoðunar að það sama eigi að gilda um aðra skóla? Ætti ekki Iðnskólinn í Reykjavík samkvæmt röksemdafærslu hv. þingmanns að falla undir hæstv. iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson og iðnaðarráðuneytið? Væri Fjöltækniskóla Íslands ekki betur komið fyrir undir hæstv. sjávarútvegsráðherra o.s.frv.?

Hvað með aðrar fagdeildir annarra háskóla, t.d. á sviði heilbrigðisvísinda? Þar fara fram rannsóknir alveg eins og í landbúnaðarháskólunum. Væri læknadeild Háskóla Íslands ekki betur komin undir hæstv. heilbrigðisráðherra o.s.frv.? Þetta eru spurningar sem ég bið hv. þingmann að svara. Ég hef varpað þeim fram einu sinni og ég geri það aftur og ég óska eftir skýrum svörum frá hv. þingmanni.