134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[20:21]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvar er Stýrimannaskóli Íslands? Hvar er hann? Það gæti vel verið að hann væri starfandi í Vestmannaeyjum eða einhvers staðar annars staðar hefði hann aldrei farið frá sjávarútveginum. Þannig að við megum ekki vera kaþólskari en páfinn í þessum efnum.

Ég hygg að það sé svo að víða um heim séu atvinnuvegaháskólar viðurkenndir og ég hef bent á það í ræðum mínum, t.d. við umræðuna um stefnuræðu forsætisráðherra, að næstbesta formið gæti verið að skapa frelsi þessara skóla í gegnum sjálfseignarstofnun til að varðveita þá. Ég er ekkert frá því, hv. þingmaður, nema við séum of stífir. Ég er heldur ekkert frá því, þó ég hafi miklar mætur á því fólki sem vinnur í menntamálaráðuneytinu og hafi átt mjög gott samstarf við það um öll þau málefni sem ég fór með sem landbúnaðarráðherra, að bókin sé enn aðalgrundvöllurinn í huga þess ráðuneytis.

Þannig hef ég verið að velta því fyrir mér, og get bara tekið undir það, það getur vel verið að þessir skólar, bæði Iðnskólinn, Stýrimannaskólinn, ef Stýrimannaskólinn væri til, og Iðnskólinn væri þess vegna öflugri ef hæstv. iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson færi höndum um hann. Þá gæti skapast samkeppni sem Sjálfstæðisflokknum þykir nú yndisleg. Samkeppni er af því góða í þeirra huga eins og okkar allra. Því samkeppni skapar frjótt samfélag. Það gæti þá verið samkeppni hvað þetta varðar á milli atvinnuvegaskóla sem heyra undir þau ráðuneyti sem fara með atvinnugreinina.

En ég er í rauninni þeirrar skoðunar, hv. þingmaður, þó ég reyni fyrst og fremst við þessa umræðu að vekja athygli á því, bæði við hæstv. landbúnaðarráðherra og hv. þingmenn (Forseti hringir.) að menn vandi sig í allri þessari gerð.