134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[20:42]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Þær umræður sem hér hafa farið fram um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands hafa að mörgu leyti verið mjög áhugaverðar. Hér hefur komið fram í umræðunni að margir þingmenn hafa hugmyndir um það hvernig Stjórnarráði Íslands væri best skipað og um ýmsar grundvallarbreytingar sem þingmenn telja að gæti verið tímabært að gera á Stjórnarráðinu. Ég geri ráð fyrir að allir flokkar hafi með einhverjum hætti gert um það samþykktir á flokksþingum sínum hvernig þessum hlutum væri best fyrir komið og margir flokkar hafa flutt hér frumvörp til laga um þetta, þar á meðal flokkur minn, Samfylkingin, en ég var einmitt 1. flutningsmaður að frumvarpi til laga um breytingar á Stjórnarráðinu sem flutt var hér á síðasta þingi.

Þar við bætist svo að það hefur auðvitað verið til skoðunar, og ef ég veit rétt þá var sérstakur vinnuhópur starfandi á vegum fyrrverandi forsætisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, meðan hann var í forsætisráðuneytinu, og reyndar líka, hygg ég, á vegum Davíðs Oddssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, meðan hann var þar, án þess að niðurstaða hafi fengist í þau mál. Það segir okkur kannski að það er heldur flóknara en menn hafa oft talið að vinna að grundvallarendurskoðun á Stjórnarráði Íslands.

Þar sem um er að ræða er að frumvarpið sem hér liggur fyrir felur ekki í sér grundvallarendurskoðun á Stjórnarráðinu, það felur í sér að tryggingamálin eru færð undir félagsmálaráðuneytið og ég hélt satt að segja að um það væri nokkuð víðtæk sátt í þinginu að þau mál væru betur komin hjá félagsmálaráðuneytinu, þ.e. almannatryggingarnar, en í heilbrigðisráðuneytinu. Ég minni líka á að margvísleg samtök, m.a. aldraðra, hafa margsinnis ályktað um þetta, að rétt væri að bæði almannatryggingarnar sem og málefni aldraðra heyrðu undir félagsmálaráðuneytið, enda væri öldrun ekki sjúkdómur og ætti því ekki heima í heilbrigðisráðuneytinu eins og nú er. Það sem þetta felur síðan líka í sér er sameining sjávarútvegsráðuneytis og landbúnaðarráðuneytis í eitt ráðuneyti og í þriðja lagi að sett sé inn heimild í lögin um að hægt sé að sameina ráðuneyti með úrskurði forseta Íslands.

Ég geri mér grein fyrir því að það kann að vera nokkur andstaða við það að sameina sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti hjá einstökum þingmönnum. Ég vil hins vegar minna á það í þessu sambandi að í marsmánuði sl. þegar hæstv. forsætisráðherra kynnti fyrir formönnum stjórnmálaflokkanna hér á þingi hugmyndir um að afgreiða fyrir vorið breytingar á lögum um Stjórnarráðið sem fólu það einmitt í sér að sett yrði inn heimild til að sameina ráðuneyti, þá man ég ekki betur en einmitt formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafi nefnt í þeirri umræðu að það gæti verið skynsamlegt í stað þess að vera með eitt atvinnuvegaráðuneyti að sameina sjó og land eins og það er kallað inn í eitt matvælaráðuneyti. Það má þá kannski segja að það sé stigið skref í þá átt með því frumvarpi sem hér er lagt fram.

Ég varð ekki vör við það í þeirri umræðu sem fór hér fram í mars að mikil andstaða væri við að setja slíka heimild inn í stjórnarráðslögin nema af hálfu Vinstri grænna þar sem settur var ákveðinn fyrirvari vegna þess að mönnum væri ekki ljóst hvað þetta fæli í sér. Það skal tekið fram hér að sá fyrirvari kom fram af þeirra hálfu.

Af minni hálfu sem sat þennan fund og var þá í stjórnarandstöðu kom fram að ég teldi skynsamlegt að gera þetta. Ég teldi skynsamlegt að setja slíkt ákvæði inn í stjórnarráðslögin vegna þess að óháð því hverjir sætu í ríkisstjórn að kosningum loknum þá gæti sú ríkisstjórn talið nauðsynlegt að gera ákveðnar breytingar á skipulagi Stjórnarráðsins og vildi ná fram ákveðnum breytingum og þyrfti að hafa til þess svigrúm. Ég var í stjórnarandstöðu þegar ég lýsti þessu yfir og viðhorf mitt hefur ekkert breyst. Það er það sama, að það sé skynsamlegt að þessi heimild sé hér til staðar.

Þetta eru breytingarnar sem hér eru á ferðinni og þær eru ekki stórvægilegar en það sem hefur blandast inn í þessa umræðu eru hugmyndir sem uppi eru núna og hafa svo sem alltaf verið uppi, að kannski væri skynsamlegt að gera ákveðna breytingu á reglugerðinni um Stjórnarráðið og flytja til verkefni á milli ráðuneyta. Það er ekki gert hér í þessu frumvarpi, það tekur ekkert á því máli. Það þarf að gerast eftir yfirlegu og vinnu og íhugun í sumar að gera þá breytingu á reglugerðinni um Stjórnarráðið og koma með það inn í þingið í haust sem breytingu á ýmsum sérlögum sem þarf að gera vegna slíks verkefnatilflutnings.

Komið hefur það sjónarmið upp, bæði hjá hv. þm. Guðna Ágústssyni og hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, að hér væri verið að sníða stjórnarráðslögin að því fyrirkomulagi sem ríkisstjórnin vill hafa á þessum hlutum. Það er út af fyrir sig alveg rétt en er eitthvað rangt við það? Farið hefur verið í smiðju til kvenna, farið hefur verið inn í reynsluheim kvenna. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði að hér væri verið að prjóna peysu utan um búkinn sem á að vera í henni. Það gerir maður yfirleitt alltaf, maður prjónar peysu utan um búkinn sem á að vera í henni. Og hv. þm. Guðni Ágústsson sagði að hér væri verið að sníða svuntu utan um eitthvert tiltekið fyrirkomulag. Það er líka eðlilegt. Það er eðlilegt að sníða svuntuna utan um þann sem á að bera hana. Þess vegna er það auðvitað fullkomlega eðlilegt að ríkisstjórnin komi með það til þingsins að hún vilji hafa hér eitthvert fyrirkomulag á Stjórnarráðinu sem getur ekki talist að feli í sér einhverja umbyltingu á því. Þetta eru ákveðnar tilfærslur en þetta er ekki umbylting á Stjórnarráðinu. Þess vegna átta ég mig ekki alveg á pólitíkinni sem er í málinu í þessari umræðu.

Eins og ég gat um áðan getur verkefnatilflutningur á milli ráðuneyta falið það í sér að gera þurfi breytingar á ýmsum lögum og þá kemur það auðvitað til kasta þingsins í haust. Þegar verkefnisstjórn sest yfir það verkefni í sumar að skoða hvaða verkefni er skynsamlegt að flytja til þá mun sú umræða auðvitað koma upp. Það er ekki verið að ljúka málinu hér, það er aðeins verið að gera ákveðnar lágmarkstilfærslur í Stjórnarráðinu sem eru ekki stórpólitískar að mínu viti.

Það hefur oft tekið tíma að gera breytingar á Stjórnarráðinu. Þegar fyrstu stjórnarráðslögin voru sett, stofnlögin um Stjórnarráðið voru sett árið 1903, voru afar takmarkaðar leiðbeiningar í þeim um það hvernig haga bæri skipulagi og starfsemi Stjórnarráðsins. Þá gengu menn reyndar í smiðju til Dana sem enn þann dag í dag eru ekki með lög um stjórnarráð heldur hefur ríkisstjórnin danska mjög mikið svigrúm til að breyta skipan stjórnarráðs síns eftir þeim áherslum sem ríkisstjórnin er með uppi hverju sinni.

Þegar stjórnarskránni hér var breytt árið 1920 var ekki talið heimilt að takmarka vald konungs eins og það var þá, og þar með ríkisstjórnar, til að ákveða tölu ráðherra eða stofna ráðuneyti eða færa verkefni á milli með almennri löggjöf. Það er ekki fyrr en með lögunum um Stjórnarráðið 1969 sem skipulag Stjórnarráðsins er í rauninni lögfest. Það tók sem sagt 70 ár að ræða sig í gegnum það og lögfesta þetta skipulag. Það er vissulega rétt hjá hv. þm. Guðna Ágústssyni að það var mikill lögspekingur og stjórnlagafræðingur, Bjarni Benediktsson, sem leiddi þá vinnu og gerði það vel og farsællega. Síðan eru liðin ansi mörg ár, það eru liðin 40 ár og samfélagið hefur auðvitað breyst mikið á þeim tíma. Þegar vel er vandað til verka getur slíkt staðið lengi en því eru samt alltaf takmörk sett hvort eðlilegt og skynsamlegt er að halda lögum óbreyttum svo lengi meðan allt er á fleygiferð í samfélaginu að öðru leyti.

Þau lög voru heldur ekki óumdeild þegar þau voru sett. Það var ekki þannig að allir væru á eitt sáttir um þau lög því að þau fólu m.a. í sér verulega fjölgun ráðuneyta og það var ein umdeildasta breytingin sem gerð var með þeim lögum. Það sem við erum kannski að reyna að ná utan um núna með þessari lagabreytingu er heimildin til að sameina ráðuneyti með úrskurði forseta Íslands. Ekki til þess að stofna ný, ekki til þess að fjölga þeim, ekki til þess að leggja þau sérstaklega af, heldur til að sameina þau ef menn telja það skynsamlegt án þess þó að nokkrar sérstakar hugmyndir séu uppi um það á þessu stigi.

Ég vil aðeins geta um það að þegar lögin um Stjórnarráðið voru sett sköpuðu þau ákveðna forsendu fyrir því að marka nýja heildarstefnu um verkaskiptingu ráðuneytanna. Hins vegar fór ekki fram skipuleg greining á því á þeim tíma hvernig best væri að ákveða samsetningu viðfangsefna einstakra ráðuneyta. Að mörgu leyti ber reglugerðin sem sett var um Stjórnarráðið 1969 svipmót þeirrar verkaskiptingar sem hafði einkennt Stjórnarráðið fyrir gildistöku laganna 1969 vegna þess að það gekk verr að gera breytingar á reglugerðinni en lögunum á þeim tíma. Reglugerðin er í ýmsum tilvikum orðin úrelt enda eru þar víða talin upp stjórnvöld og verkefni sem eru ekki lengur á starfssviði viðkomandi ráðuneyta og ný lögbundin viðfangsefni eru ekki tilgreind í reglugerðinni. Það er því ekkert óeðlilegt við að taka þessi mál til skoðunar og það frumvarp sem hér er flutt markar hvorki upphaf né endi þess máls — það markar kannski upphaf en sannarlega ekki endi — og er ekki nein umbylting í sjálfu sér heldur þarf að fara í miklu betri skoðun á þessum málum og vandaðri umfjöllun. Það verður auðvitað gert.

Virðulegur forseti. Ég ætla í sjálfu sér ekki að hafa um þetta fleiri orð en bendi á að jafnvel þó að við kæmum ekki með þetta frumvarp inn í þingið og værum ekki að gera þær breytingar sem frumvarpið felur í sér, þá er ekkert sem kemur í veg fyrir að reglugerðin um Stjórnarráðið gæti verið í mikilli grundvallarskoðun hjá okkur og við værum með hugmyndir um breytingar á henni og kæmum með frumvörp til laga í haust, sérlög sem fælu í sér breytingu á verkaskiptingu milli ráðuneyta. Það er í sjálfu sér alveg óháð því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar.

Ég bið menn að gæta að því að þarna er ekki um neina byltingu að ræða. Þetta mál á eftir að koma aftur til þingsins til frekari skoðunar þegar gerðar verða breytingar á sérlögum sem leiða af hugmyndum um breytta verkaskiptingu milli ráðuneyta og þá gefst auðvitað mikið ráðrúm og tími til að fara yfir þessi mál öllsömul.