134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[20:55]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er að sönnu rétt að ríkisstjórnin gæti verið með í undirbúningi víðtæka breytingu á verkaskiptingu milli ráðuneyta og haft í smíðum nýja reglugerð um Stjórnarráðið. Það er einmitt það sem við höfum verið að gagnrýna hér og benda á. Af hverju ber málin ekki að með þeim hætti að þeirri vinnu sé lokið, að ríkisstjórnin vinni heimavinnuna sína, komi sér niður á það hvernig hún ætlar að hafa þessar breytingar efnislega og komi svo með pakkann hér fullmótaðan fyrir þingið og láti málin ganga hér með eðlilegum hætti í gegnum þingið?

Ég vil nota tækifærið og spyrja hæstv. utanríkisráðherra almennt um vinnubrögðin í þessu máli. Er hæstv. utanríkisráðherra stolt af því og sátt fyrir hönd síns flokks að þessi mál skuli bera að Alþingi með þeim hætti sem hér ber raun vitni? Að hefðir um þingsköp séu rofnar, að afbrigðum sé beitt með þeim hætti sem hér var gert síðastliðinn fimmtudag, að þingmál fái meðhöndlun af því tagi sem frumvarpið um þingsköpin fékk í allsherjarnefnd í kvöld? Að á einum fundi í kvöldmatarhléi sé mál af því tagi tekið á dagskrá, rætt og rifið út úr nefnd og öllum óskum hafnað um að það fái eðlilega þinglega meðferð og skoðun? Því er hafnað að það fái að verða samferða þessu frumvarpi og að sömu gestir að hluta til væru kallaðir til út af málinu í heild, geti komið til nefndarinnar og tjáð sig. Þetta heitir ofbeldi á okkar máli í þingræðislegum skilningi þegar meiri hlutinn beitir fullkomnu ofbeldi af þessu tagi og meinar mönnum að láta mál fá eðlilega skoðun, hafnar að gestir séu kallaðir til. Því er hafnað að nefndarmönnum gefist ráðrúm til að skoða málin. Hin þinglega meðferð er gerð að sýndarmennsku með þessum hætti.

Er formaður Samfylkingarinnar sáttur við að málin séu unnin með þessum hætti í gegnum Alþingi og að þinghefðir og þingskyldur, og þar á meðal að rannsóknar- og upplýsingaskylda þingnefnda, (Forseti hringir.) séu meðhöndlaðar eins og þarna var gert í kvöld?