134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[20:58]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sé enga ástæðu til þess að vinnu við að skoða reglugerð um Stjórnarráðið og hugsanlegan tilflutning verkefna milli ráðuneyta sé lokið áður en þetta frumvarp kemur til þingsins. Þetta frumvarp felur bara í sér að sameina sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti í eitt ráðuneyti og þá fara væntanlega þau verkefni sem hafa verið undir þeim ráðuneytum undir þetta sameinaða ráðuneyti nema þegar kemur að því að gera breytingar á reglugerð og viðkomandi lögum. Það felur í sér þá stefnumörkun að tryggingamálin verða færð undir félagsmálaráðuneytið. Þetta er stefnumörkun ríkisstjórnarinnar og það er í samræmi við hana sem síðan verður unnið í sumar að því m.a. að greina í sundur þá málaflokka sem nú eru hjá Tryggingastofnun ríkisins, slysatryggingar, sjúkratryggingar, almannatryggingar. Þetta er vinna sem þarf að fara af stað til þess að hægt sé að flytja málaflokkinn yfir í félagsmálaráðuneytið. Hvað varðar önnur verkefni verður bara að koma í ljós hvaða skynsamlegar hugmyndir koma fram í sumar um slíkan tilflutning verkefna en þetta frumvarp í sjálfu sér kallar ekkert á að þeirri vinnu sé lokið.

Varðandi þingskapalögin, að þau séu tekin hér fyrir fyrst og afgreidd úr allsherjarnefnd, þá leit ég svo á að það hefði verið til þess að mæta gagnrýni sem kom fram hjá stjórnarandstöðunni við því að það væri fyrst verið að afgreiða lögin um Stjórnarráðið og að hlutast til með þeim hætti um málefni þingsins í stað þess að þingið tæki þingskapalögin fyrir. Það var gagnrýnt hér að ekki væru kosnar þær nefndir sem þingsköpin kveða á um. Ég leit svo á að með því að setja frumvarpið um þingsköpin fyrst á dagskrá væri verið að reyna að mæta þeirri gagnrýni þannig að hægt væri að ganga í það verk að kjósa þær nefndir sem verið var að kalla eftir. En þetta kann að vera misskilningur af minni hálfu.