134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[21:02]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði hér áðan felur þetta frumvarp í sér tvíþætta stefnumótun af hálfu ríkisstjórnarinnar. Annars vegar að færa almannatryggingarnar undir félagsmálaráðuneytið frá heilbrigðisráðuneytinu. Ég hafði ekki áttað mig á því að andstaða væri við það í þinginu.

Ég minni enn og aftur á öll þau félagasamtök sem hafa ályktað í þessa veru. Ég hef ekki skoðað allar samþykktir þeirra flokka sem fulltrúa eiga á þingi en mér er nær að halda að hingað til hafi ekki verið andstaða við það af hálfu þeirra flokka að þetta væri gert og gæti verið nokkuð góður samhljómur um þetta mál. Þetta er önnur stefnumörkunin, stefnumörkun númer eitt. Það er mikilvægt að hún liggi fyrir þannig að hægt sé að fara að vinna að því að sortera þetta í sundur í sumar og öllum sé ljóst að hverju er stefnt.

Stefnumörkun númer tvö er að sameina sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti í eitt ráðuneyti. Ef ég hefði haldið að einhver væri því sérstaklega andsnúinn hefði ég a.m.k. ekki talið það vera formann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Mér hefur fundist hann tala í þá veru að það gæti verið skynsamleg lending að stofna eitt matvælaráðuneyti úr þessum tveimur ráðuneytum. Ég get skilið fyrrv. landbúnaðarráðherra, sem er sárt um sitt gamla ráðuneyti í þessari breytingu, en ég á mjög erfitt með að skilja formann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að gera svo mikið pólitískt mál úr þessum tveimur stefnumarkandi tillögum í þessu frumvarpi. Þetta frumvarp felur ekkert annað í sér á þessu stigi, ekkert annað.