134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[21:07]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Frú forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu mikið en þetta er eiginlega fyrsti reglulegi vinnudagur minn í þingsölum ef frá er talinn þingsetningardagurinn sjálfur. Hann hefur verið mér mjög lærdómsríkur. Hér höfum við unnið samkvæmt skilgreiningu 63 einstaklingar í fjórar klukkustundir, það eru sem sagt 252 vinnustundir, við eitthvað sem ég hélt lengi vel að 61 okkar vissu ekki hvað snerist um. Ég hef eiginlega áttað mig á því nú að þar hafði ég rangt fyrir mér, ég held að 63 okkar viti ekkert um hvað málið snýst.

Það hefur ekki farið fram hjá þingheimi að það er verið að samþykkja breytingar á Stjórnarráðinu sem forustumenn stjórnarflokkanna vita ekki hvort eru upphaf á öðrum og meiri breytingum á Stjórnarráði Íslands. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði í ræðu áðan að þetta væri e.t.v. upphaf að þeim breytingum og örfáum mínútum síðar í sömu ræðu að þetta væri e.t.v. óháð þeim breytingum. Þetta kom fram í sömu ræðunni.

Það er mjög langt síðan ég hef unnið á vinnustað þar sem ég vissi ekki hvað ég var að gera. Mig rámar þó í það í frystihúsi sem strákur, að þá höfum við stundum látið sem verið væri að láta okkur gera eitthvað sem við skildum ekkert í en eftir á held ég að það hafi legið í því að það var verið að láta okkur þrífa. Við þóttumst aldrei skilja þau verkefni í móttökunni.

Ég á svo sem ekki fjölbreytilegan starfsferil að baki og hef lengst af unnið við blaðamennsku. Í því starfi hef ég tíðum glímt við að fá upplýsingar frá stjórnmálamönnum, ráðherrum og sveitarstjórnarmönnum, bæjarstjórum og fleirum sem fara með völd í þessu landi. Í dag fylgdist ég með því þegar þingheimur reyndi að knýja á um að fá svör frá ráðherrum. Ég verð að játa að ég sé ákveðna afturför í þessari starfsskiptingu minni vegna þess að sem blaðamaður á ég mun auðveldara með að fá skýr svör hjá ráðamönnum en þingheimur hefur nokkra möguleika á. Ég fullyrði að ef blaðamönnum væri svarað með þeim hætti sem hér er gert, gagnvart stjórnarandstöðu, þá væri það ekki uppskrift að góðum samskiptum við fjölmiðla. Það er ekki nóg að hafa yfirborðskurteisi, þótt ég ætli ekkert að bera í bætifláka fyrir það að mér hafi skjöplast á henni í dag og gleymt að nota góð orð sem ég ber fulla virðingu fyrir að séu notuð í þinginu, eins og hv. þingmaður. Það er líka mikilvægt að kurteisin risti dýpra, að spurningum sé svarað og okkur sé sagt þegar ekki á að svara spurningunum.

Ég er ekki að segja með þessu að blaðamenn hefðu fengið það klárt og kvitt út hjá ráðamönnum, hefðu þeir spurt. Þeir fá ekki alltaf klárt og kvitt út nákvæmlega hvað gera eigi, upphafið að hverju þessi lagabreyting væri. En þeir hefðu fengið svör á borð við: Þetta færð þú ekki að vita núna, þetta er leyndarmál í bili. Því hefði verið svarað hreint út.

Þegar bent var á það í dag að meira að segja væri búið að reikna út þann fjölda starfsmanna Stjórnarráðsins sem mundi breyta um starfsvettvang við þessa breytingu þá var það augljóst að vitað er hvað stendur til. Það er ákveðið plan í gangi en það er ekki gefið upp eða þá að menn eru svo innbyrðis ósammála um það að þeir geta ekki talað um það.

Það er samt athyglisvert að hæstv. forsætisráðherra vísaði tvívegis í dag í umræðunum til þess að menn gætu lesið um þetta í blöðunum. Hann vísaði þingheimi beinlínis á að um þetta hefði verið fjallað á opinberum vettvangi. Ég gat ekki skilið það betur en svo að við ættum að fletta upp þeim Morgunblaðsgreinum þar sem ráðherra og forráðamenn stjórnarflokkanna hafa trúað blaðamönnum fyrir því hvað standi til að gera, trúað þeim fyrir því að t.d. standi til að taka helst öll verkefnin undan landbúnaðarráðuneytinu og gera málefni sveitarfélaga að deild í Vegagerðinni. Mér þykir þetta tvennt ekki beinlínis benda til mikillar virðingar fyrir málefnum landsbyggðarinnar og ekki lofa mjög góðu um frammistöðu þessarar stjórnar gagnvart landsbyggðinni. Hæstv. forsætisráðherra vísar tvívegis til þess í dag að við getum lesið um þetta í blöðunum en hæstv. ráðherra neitar að gefa okkur upp hið sama og blöðunum er sagt.

Ég ætla ekki að hafa þetta öllu lengra. Ég vil aðeins taka fram, varðandi vísanir í reynsluheim kvenna, sem hæstv. utanríkisráðherra vék hér aðeins að, að það er rétt hjá utanríkisráðherra — þá reynslu hef ég af hannyrðum kvenna sem ég hef haft svolítið gaman af þótt ég hafi ekki komist í að stunda þær lengi — að það er alveg rétt, Steingrímur, að peysur eru prjónaðar um ákveðna búka. (Gripið fram í.) Nei, og það er líka annað sem er mikið atriði. Úr því að við erum hér 63 að vinna við prjónaskap á einhverri flík er svolítið atriði að við höfum einhverja hugmynd um hvernig kykvendi sem á að fara í flíkina gæti litið út.