134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

vandi sjávarbyggðanna.

[13:45]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það eru váleg tíðindi, tillögur Hafrannsóknastofnunar um þriðjungssamdrátt í þorskveiðum. Undirstöðuatvinnugrein landsbyggðarinnar er að dragast saman, lífi sjávarbyggðanna er teflt í hættu og það er ljóst að við þurfum að bregðast við þeirri alvarlegu stöðu sem nú er uppi víða um land.

Ég fagna því að hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur boðið öllum þingflokkum að koma að þessu máli með samráði en nú er það svo að Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft um þetta ráðuneyti að segja síðustu 16 árin og hefur ekki verið mikill vilji til þverpólitísks samráðs í þessum málaflokki. Nú ber nýrra við og því ber að fagna.

Ég vek athygli á því að í stjórnarsáttmála síðustu ríkisstjórnar var kveðið á um það að hluti af því veiðigjaldi sem rennur úr sjávarbyggðum landsins, því veiðigjaldi sem íslenskur sjávarútvegur greiðir aukalega, skuli renna aftur til sjávarbyggðanna í formi nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar. Því miður er í stefnuskrá núverandi ríkisstjórnar ekkert kveðið á um að það veiðigjald sem sjávarbyggðirnar og sjávarútvegurinn greiða skuli renna aftur til byggðanna í formi atvinnuuppbyggingar eða nýsköpunar. Það er nefnilega þannig, hæstv. forseti, að í þessum byggðarlögum eru hugmyndir um að auka fjölbreytni í atvinnulífinu en það vantar fjármagn til þess að móta þessar hugmyndir og koma þeim í framkvæmd. Við þurfum að lyfta grettistaki í þessum málaflokki, mjög alvarleg staða blasir nú við mörgum sjávarbyggðum landsins.

Ég vil taka þátt í því með ríkisstjórninni að grípa til aðgerða hvað þetta varðar og það er sanngirnismál, hæstv. forseti, að það sérstaka veiðigjald sem íslenskur sjávarútvegur greiðir renni aftur til sjávarbyggðanna. (Forseti hringir.) Það þarf innspýtingu í sjávarbyggðir landsins, sérstaklega í þeirri stöðu sem blasir við núna í dag. Aðgerða er þörf, hæstv. forseti.