134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

afgreiðsla mála í allsherjarnefnd.

[14:18]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ys og þys út af engu er það auðvitað þegar þingsköpin, lög, hefðir, vinnubrögð, þingleg umfjöllun þingmála á í hlut, þ.e. þegar það stangast eitthvað á við vilja ríkisstjórnarinnar til að mál séu afgreidd að hennar geðþótta á þingi. Það er það sem í raun og veru felst í hugsun þessarar ræðu. Dapurlegast er þó auðvitað að forseti Alþingis skuli bara ætla að láta þetta yfir sig ganga mótmælalaust, ætli bara láta það athugasemdalaust yfir sig ganga að frumvarp um breytingar á þingsköpum Alþingis fái enga rannsókn í þingnefnd, sé tekið inn í nefnd á kvöldmatarfundi og afgreitt út úr henni aftur á sama fundinum. Venjan er sú að afgreiðsla mála er boðuð eða tilkynnt á fundi og síðan tekin fyrir og afgreidd á hinum næsta. Hér er því auðvitað um þvílíka færibandaafgreiðslu að ræða á einu máli að það hálfa er nóg og þess fá dæmi í þingsögunni að mál, sem ekki er þá hreint smámál og alger samstaða um, sé tekið inn og afgreitt út á einum og sama fundinum. Það vita allir sem eitthvað hafa unnið að afgreiðslu þingmála.

Hæstv. forseta hefði verið nær að standa í lappirnar fyrir hönd gildandi laga, þingskapa, og láta kjósa í nefndirnar síðastliðinn fimmtudag en að fara nú með þá ræðu sem hann gerði hér áðan um nauðsyn þess að hraða afgreiðslu þessara mála til þess að hægt væri að kjósa þingnefndir. Það var nefnilega hægt að gera það síðastliðinn föstudag og það átti að gera það. Sá er andi þingskapalaganna og orkar mjög tvímælis að víkja honum til hliðar með afbrigðum þegar svona grundvallaratriði eiga í hlut eins og það sem stendur í viðkomandi grein þingskapalaga, að kjósa skuli í fastanefndir þingsins á fyrsta fundi. Við buðum upp á það að fresta þeim fundi og fresta þar með kosningunni fram yfir helgina þannig að menn gætu talað saman. Á það var ekki hlustað. Forseti sá ekki einu sinni ástæðu til að taka fundarhlé og ræða við formenn þingflokka og forustumenn ríkisstjórnarinnar sáu þegjandi, þrumdu þegjandi undir því að í vændum var sem og gerðist að afbrigðum var beitt með þeim hætti eða þau knúin fram með þeim hætti sem raun ber vitni, að hinn sterki meiri hluti ríkisstjórnarinnar birtist umhugsunarlaust í fyrsta sinn þannig að það var valtað yfir minni hlutann. Varnarákvæði sem sett var inn í þingsköpin til þess að einhver lágmarkssómi sé að umfjöllun mála var þarna settur til hliðar. Og stendur kannski til að nota hann aftur, virðulegur forseti, eða hvernig á að skilja orð forseta að hann hafi ákveðið að reyna að klára afgreiðslu þessa máls hér í dag? Það verður ekki tekið milli 2. og 3. umr. nema með afbrigðum. Er þetta það sem í vændum er, að það verði valtað svona algerlega yfir Alþingi aftur og aftur þegar ríkisstjórninni hentar það? Er það lýðræðis- og þingræðisást þessara flokka? Eru það samræðustjórnmálin, hæstv. iðnaðarráðherra?