134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

afgreiðsla mála í allsherjarnefnd.

[14:23]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég geri athugasemd við það sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir nefndi hér að ríkisstjórnin og þingmeirihlutinn hafi farið á svig við þingsköpin. Í 79. gr. þingskapa stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Eftir uppástungu forseta eða formanns þingflokks má bregða út af þingsköpum þessum ef tveir þriðju hlutar þeirra þingmanna, er um það greiða atkvæði, samþykkja.“

Þetta stendur í þingsköpum þannig að það er ekkert farið á svig við þau. Ef menn eru virkilega að gefa það í skyn að stjórnarþingmenn séu strengjabrúður og taki ekki ákvarðanir sjálfstætt þá þykir mér mjög farið að harðna á dalnum. Og þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon segir að stjórnarþingmenn hafi samþykkt það umhugsunarlaust þá er það ekki rétt. Það gildir a.m.k. ekki um mig. Ég tók ákvörðun mjög meðvitað um þetta. Ég taldi nefnilega að það liti mjög illa út og væri fáránlegt ef menn ætluðu að fara að kjósa í nefndir, kosningu sem ætti að gilda bara í eina viku eða tvær. Það er hlægilegt. Ég hugsa að ef það hefði verið gert hefði stjórnarandstaðan gagnrýnt það alveg eins: Hvað eru menn að kjósa í nefndir sem eiga bara að starfa í eina viku eða tvær og fá ekki einu sinni eitt einasta mál, og kjósa formenn í nefndirnar? (Gripið fram í.) Ég held að þetta hafi verið ágæt lausn. Ég tók ákvörðun á sínum tíma um að greiða atkvæði með þessum afbrigðum 79. gr. og ég geri ráð fyrir að aðrir stjórnarþingmenn sem greiddu þessu atkvæði, jafnt nýkomnir á þing og aðrir, hafi virkilega tekið ákvörðun um það sjálfir en ekki verið fjarstýrt.