134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

afgreiðsla mála í allsherjarnefnd.

[14:37]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Vert er að geta þess að það var haldinn einn fundur með formönnum flokkanna þar sem leitað var eftir samstöðu um málið. Sú samstaða náðist hins vegar ekki. En vegna orða hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar áðan þá er einfaldlega heimild í þingsköpum til að beita afbrigðum. Það kann að koma upp sú staða að eðlilegt sé að beita afbrigðum. Í tilvikum eins og þessu hljóta menn að velta því fyrir sér hvort það hefði verið eðlilegt að kjósa á fimmtudegi í nefnd til fjögurra ára og kjósa svo aftur á þriðjudegi. Um það snýst þetta mál í raun og veru. Að kjósa aftur á þriðjudegi eða miðvikudegi til að leggja nefndirnar niður.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon segir einnig: Hvað liggur okkur á þegar þetta tekur ekki gildi fyrr en um áramót? Í 3. gr. laga um þingsköpin segir: „Lög þessi öðlast þegar gildi“, þ.e. nefndirnar fara að vinna eftir þessum lögum um leið og þetta frumvarp hefur verið samþykkt. Þannig að frumvörp sem hér verða lögð fram fara inn í þessar nefndir, lögin öðlast þegar gildi. (Gripið fram í.) Um það snýst þetta mál, ekki um áramót. Þingið hefur strax störf á grunni þeirra hugmynda sem í þessu frumvarpi eru, (Gripið fram í.) á grunni þess frumvarps sem hér er til umræðu. Menn eru að ræða hér frumvarp til laga um breytingu á þingsköpum. Síðan munu menn ræða frumvarp til laga um breytingu á Stjórnarráðinu eða reglugerð Stjórnarráðsins. Það kemur fyrir síðar og þá gefst einmitt færi á að endurtaka öll þau sjónarmið sem hér hafa komið fram og gefst örugglega gott tóm og færi til þess.

Það er mikilvægt að við ræðum um málið eins og það er. Það er grundvallaratriði. Hér er verið að ræða um að breyta nefndaskipan þingsins að mörgu leyti í takt við þær breytingar sem átt hafa sér stað í samfélaginu undanfarna áratugi. Auðvitað getur vel verið að einhverjir séu andvígir þeim breytingum sem átt hafa sér stað og það að þingið skuli reyna að aðlagast þeim breytingum. Það þarf kannski ekki að koma á óvart þó að einhverjir kunni að vera andvígir. En ég held að í ljósi þess sem hér er áformað, virðulegi forseti, sé sjálfsagt og eðlilegt að ljúka þessu máli og þingið breyti skipulagi sínu í samræmi við þær hugmyndir sem liggja fyrir í þessu frumvarpi. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Ég hef nú dálítið (Forseti hringir.) gaman af því að hv. þingmaður, sem hefur nú þegar talað tvisvar, þurfi einnig að tjá sig úr sæti sínu, en það er ágætt. Það liggur fyrir að það er afar skynsamlegt, (SJS: Skynsamlegt er orðið.) afar skynsamlegt, já, að þingið taki ákvörðun um það hvernig það ætlar að haga sínu skipulagi, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon.