134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

þátttaka Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu.

2. mál
[15:08]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna samnings um þátttöku Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu. Frumvarpið mælir fyrir um heimild til að fullgilda samning um þátttöku Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu og kveður á um lögfestingu breytingar á meginmáli EES-samningsins vegna þessa.

Jafnframt mælir það fyrir um breytingu á lögum um útlendinga, lögum um atvinnuréttindi útlendinga og lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Samkvæmt EES-samningnum er ríkjum sem ganga í Evrópusambandið enn fremur skylt að gerast aðilar að EES-samningnum. Þegar samkomulag náðist um inngöngu þessara tveggja nýju ríkja í Evrópusambandið var því nauðsynlegt að hefja viðræður um stækkun Evrópska efnahagssvæðisins. Stefnt var að því að stækkun EES ætti sér stað samhliða stækkun Evrópusambandsins þann 1. janúar 2007 líkt og við síðustu stækkun EES árið 2004. Vegna erfiðra samningaviðræðna tókst ekki að ná samkomulagi innan þess tíma en það hafði þó óveruleg áhrif á daglega framkvæmd EES-samningsins.

Í viðræðunum gerði framkvæmdastjórn ESB verulegar kröfur til EFTA-ríkjanna um fjárframlög í þróunarsjóð EFTA. Þetta reyndist erfiðasta samningsatriðið, ekki síst vegna þess að Noregur sótti fast að ekki yrði um að ræða sérstakt tvíhliða framlag Noregs til viðbótar við framlög EFTA-ríkjanna eins og raunin varð við stækkunina 2004.

Einnig var sem fyrr tekist á um kröfur um greiðari aðgang að mörkuðum ESB fyrir sjávarafurðir, en Ísland lagði mikla áherslu á að stækkunin leiddi ekki til lakari viðskiptakjara en fríverslunarsamningar EFTA við hin nýju aðildarríki ESB tryggðu þá þegar.

Aðildarsamningur Búlgaríu og Rúmeníu var áritaður í Brussel þann 14. maí sl. Samningaviðræðum vegna aðildarinnar lauk í lok mars með undirritun bráðabirgðasamkomulags en aðildarsamningurinn sjálfur var hins vegar ekki tilbúinn til áritunar fyrr en um miðjan maí. Gert er ráð fyrir því að samningurinn verði undirritaður af öllum aðilum í júlí og verði beitt til bráðabirgða frá þeim tíma þar til öll aðildarríkin 30 hafa fullgilt hann fyrir sitt leyti.

Vegna stjórnskipulegra krafna geta íslensk stjórnvöld ekki framkvæmt alþjóðasamning til bráðabirgða án þess að hann hafi verið fullgiltur, eftir atvikum með samþykkt Alþingis. Vegna þessa er frumvarp þetta flutt nú á sumarþingi.

Niðurstaða samninga felur í sér að EFTA-ríkin munu fram til loka apríl 2009 auka framlög sín til Þróunarsjóðs EFTA um alls 72 millj. evra. Hlutdeild Íslands í þessum framlögum nemur á ársgrundvelli ríflega 130 millj. kr. samkvæmt núverandi gengi. Samningurinn felur einnig í sér aukinn tollfrjálsan markaðsaðgang fyrir frystan humar og fersk karfaflök inn á markað Evrópusambandsins.

Miðað við útflutning frá Íslandi til Evrópusambandsins á þessum tegundum er um nokkra hagsmuni að ræða fyrir íslenska framleiðendur og má áætla að lækkun tolla nemi á ársgrundvelli allt að 70 millj. kr. Ég legg áherslu á mikilvægi þess fyrir viðskiptalífið að samningurinn verði fullgiltur af Íslands hálfu sem allra fyrst og gangi þannig í gildi til bráðabirgða um leið og hann hefur verið undirritaður í sumar. Þetta er m.a. grundvöllur þess að tollkvótarnir sem Ísland samdi um komi til framkvæmda og ekki komi til röskunar á daglegri framkvæmd EES-samningsins.

Utanríkisþjónustan mun í framhaldinu fylgjast vel með framvindu fullgildingar samningsins. Ég tel mikilvægt að við Íslendingar göngum fram með góðu fordæmi og ég legg því áherslu á að þetta frumvarp fái skjóta meðferð.

Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að nýta undanþágu í aðildarsamningnum sem frestar gildistöku ákvæða um frjálsa för ríkisborgara frá Búlgaríu og Rúmeníu tímabundið. Þetta er gert að vel yfirlögðu ráði og er í samræmi við það sem gert var við stækkun EES árið 2004. Nokkur þensla hefur ríkt á íslenskum vinnumarkaði á síðustu missirum og hefur mælst tiltölulega lítið atvinnuleysi. Í kjölfarið hefur erlendum ríkisborgurum fjölgað mikið á innlendum vinnumarkaði.

Þrátt fyrir umframeftirspurn eftir starfsfólki á síðustu missirum þarf jafnframt að líta til þess að íslenskur vinnumarkaður er smár í sniðum í samanburði við vinnumarkaði nágrannaríkja okkar. Þegar litið er til reynslunnar geta aðstæður á vinnumarkaði breyst hratt. Af þessum sökum er lagt til í frumvarpi þessu að gildistöku ákvæða 1.–6. gr. reglugerðar ráðsins nr. 1612/68, um frelsi launþega til flutninga innan bandalagsins, verði frestað tímabundið að því er varðar aðgengi ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu að íslenskum vinnumarkaði. Gert er ráð fyrir því að undanþágan gildi til 1. janúar 2009 en þá verða liðin tvö ár frá því að ríkin tvö urðu aðilar að Evrópusambandinu en í rauninni einungis eitt og hálft ár frá því að við afgreiðum hann þá hér ef svo verkast vill.

Heimilt er að framlengja undanþáguna um þrjú ár ef fýsilegt telst og svo aftur um tvö ár ef slíkt reynist nauðsynlegt. Því er í sjálfu sér hægt að fresta gildistöku ákvæða um frjálsa för allt til 1. janúar 2014 ef það er talið nauðsynlegt.

Eins og fyrr sagði er lagt til að undanþágan gildi til 1. janúar 2009 en að sjálfsögðu munu íslensk stjórnvöld endurmeta stöðuna fyrir þann tíma og leggja mat á það hvort ástæða sé til að framlengja frestun ákvæðanna.

Það leiðir af frestun gildistöku ákvæða reglugerðarinnar að ákvæði a-liðar 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga tekur ekki gildi að því er varðar ríkisborgara þessara ríkja fyrr en á sama tíma og ákvæði reglugerðarinnar. Er því mælt með að ákvæði laga um atvinnuréttindi útlendinga um veitingu atvinnuleyfa gildi áfram, eins og verið hefur um atvinnuréttindi ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu.

Þessi tilhögun kallar á lagabreytingar á lögum nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, og lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga. Jafnframt kallar frestun gildistöku ákvæða um frjálsa för á breytingu á útlendingalögum nr. 96/2002. Í frumvarpinu er lagt til að þau ákvæði útlendingalaga þar sem kveðið er á um að EES- og EFTA-útlendingur eigi rétt á dvalarleyfi hér á landi framvísi hann gögnum sem sýni að hann sé launþegi sem fellur undir lög um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan EES-svæðisins taki ekki til þeirra sem eru ríkisborgarar í Búlgaríu og Rúmeníu.

Jafnframt er lagt til að sömu takmarkanir eigi við um þau ákvæði laganna sem heimila EES- og EFTA-útlendingi að dvelja hér á landi án sérstaks leyfis í sex mánuði ef hann er hér í atvinnuleit eða til að sækja um dvalarleyfi eftir komu til landsins.

Herra forseti. Stækkun Evrópska efnahagssvæðisins mun þýða afnám hindrana í vegi viðskipta með vörur, þjónustu og fjármagn milli Íslands og nýju EES-ríkjanna tveggja. Jafnframt munu fyrirtæki á stækkuðu efnahagssvæði búa við sama lagaumhverfi og sömu samkeppnisskilyrði. Stækkunin mun því tvímælalaust greiða götu íslenskra fyrirtækja inn á markaði í nýju aðildarríkjunum. Að sjálfsögðu munum við einnig opna okkar markaði gagnvart nýju EES-ríkjunum en við höfum haft góða reynslu af því frjálsræði í viðskiptum sem fylgir þátttöku okkar á Evrópska efnahagssvæðinu.

Hinn 2. maí sl. voru liðin 15 ár frá því að samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði var undirritaður í Óportó. Samningurinn er tvímælalaust einn mikilvægasti milliríkjasamningur sem íslensk stjórnvöld hafa gert og hefur hann lagt sitt af mörkum í því að auka samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og í raun samfélagsins alls.

Eftir þessa stækkun verður Evrópska efnahagssvæðið sameiginlegt markaðssvæði 30 Evrópuríkja með um 495 millj. íbúa. Sá hagstæði samningur sem við náðum vegna stækkunarinnar mun tvímælalaust auðvelda okkur að nýta þau nýju sóknarfæri sem nú bjóðast innan EES.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. utanríkismálanefndar.