134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

þátttaka Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu.

2. mál
[15:20]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra: Ég geri mér fyllilega ljóst að spurningin snýst um afmarkaðan tíma. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort hún telji, miðað við sem segir í greinargerð frumvarpsins, að það sé enn nokkur þensla á vinnumarkaðnum og hvað réttlæti þá að beita þessum takmörkunum. Eru einhverjar ástæður eða aðstæður í þessum tveimur löndum, Rúmeníu og Búlgaríu, sem gera eðlilegt að beita þessum sérstöku ráðstöfunum frá einu af fjórfrelsinu í Evrópusambandinu?

Spurningin er líka þessi: Miðað við það sem kemur fram í frumvarpinu um að búast megi við því að það dragi úr vinnuframboði, er ástæða til þess að takmarka að einhverju leyti flæði erlends verkafólks til landsins? Ég vil benda á að við frjálslynd héldum því fram í kosningabaráttunni að flæðið væri það mikið að íslensk stjórnvöld hefðu engin tök á að fylgjast með því hvað um væri að ræða.

Í einu dagblaðanna í dag er vikið að því að formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur ákveðið að kæra fyrirtæki sem hefur fjölda starfsmanna í vinnu sem eru hvergi skráðir og hafa engar kennitölur. Þetta er vafalaust ekki eina fyrirtækið sem þannig er komið fyrir.

Það sem við bentum á er einfaldlega að það var of mikill fjöldi á of skömmum tíma sem kom til landsins og þess vegna verðum við sem 300 þús. manna þjóð að bregðast við því. Ég lít á frumvarp utanríkisráðherra hér, og félagsmálaráðherra, sem viðbrögð við þeim vanda sem þegar er kominn og þegar er fyrir hendi. Og ég vil fá skýr svör hvort um það er að ræða eða ekki.