134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

þátttaka Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu.

2. mál
[15:22]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér var spurt hvort það væru einhverjar aðstæður í þessum tveimur löndum sem gerðu það sérstaklega að verkum að þessi aðlögunartími væri notaður, þetta eina og hálfa ár. Í sjálfu sér er ekki um það að ræða í þessu tilviki. Hins vegar er hér um að ræða tvær nýjar þjóðir sem gerast aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu, Búlgaríu og Rúmeníu. Hér er um að ræða nýja málahópa, ef svo má segja, fólk með tungumál sem við höfum kannski ekki búið okkur nægilega vel undir hér á landi að taka við. Það er auðvitað líka mikil ábyrgð sem í því felst að taka við nýjum þjóðahópum. Við þurfum að búa okkur undir það og reyna að átta okkur á því í hversu miklum mæli fólk frá þessum löndum muni sækja inn á hinn þanda íslenska vinnumarkað.

Það er fyrst og fremst spurningin um það hvernig við erum í stakk búin til þess að taka á móti þessu fólki og reyna að nýta þennan aðlögunartíma til að átta okkur á því í hversu miklum mæli það muni sækja hingað til lands.

Það er rétt að taka það fram að ef aðildarríki kjósa að nýta ekki aðlögunartímann og hrinda strax í framkvæmd reglum ESB um frjálsa för er ekki hægt að snúa aftur til fyrra horfs. Þess vegna er mikilvægt fyrir okkur að átta okkur á því með þennan nýja ríkjahóp, þessi tvö nýju ríki, í hversu miklum mæli þau sæki hingað. Ef við nýtum ekki aðlögunartímann verður í sjálfu sér ekki aftur snúið þannig að hér er bara um ákveðna varúðarráðstöfun að ræða vegna þessarar stækkunar.

Það var spurt hvort takmarka ætti flæði verkafólks til landsins. Það hefur komið fram að það eru í rauninni mjög miklar takmarkanir á flæði fólks utan Evrópska efnahagssvæðisins til Íslands, og m.a. kvarta Samtök atvinnulífsins undan því núna að þau geti ekki sótt sérhæft starfslið til Asíu (Forseti hringir.) sem þau þurfi á að halda. Ég tel ekki ástæðu til þess að takmarka það neitt frekar.