134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

þátttaka Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu.

2. mál
[15:48]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hvet hv. þingmann til að ræða þetta á yfirvegaðan hátt. Staðreyndin er sú að hv. þingmaður nefndi oft og tíðum í ræðu sinni stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar og kom þar af leiðandi með það mál inn í þessa umræðu en ég geri mér alveg grein fyrir því hvað við erum að ræða um hér.

Hins vegar vakti ég athygli á því að Vinstri grænir stóðu að heilmiklum framkvæmdum á Hellisheiði. Gríðarlegur fjöldi af útlendu vinnuafli hefur unnið í tengslum við þær framkvæmdir. Ég er sammála hv. þingmanni um að það beri að hlúa vel að þessu fólki og mönnum ber að virða réttindi þessa fólks. Þess vegna rak ég mig á það í máli hv. þingmanns að hún ræddi nær eingöngu um Kárahnjúka. Það vill svo til að menn hafa byggt virkjanir á öðrum stöðum á landinu, sem m.a. Vinstri grænir hafa komið að. Ég vil að við höldum hér rétt á málum og ræðum um þau í samhengi af því að ég efa að það sé verr búið að fólki á Austurlandi en hér á höfuðborgarsvæðinu hvað þetta varðar og við getum verið sammála um það, við hv. þingmaður, að það ber að bæta réttindi þessa fólks, en við skulum hafa í huga að það er ekki eingöngu á Austurlandi.