134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

þátttaka Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu.

2. mál
[15:56]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir framsögu í þessu máli frá hæstv. utanríkisráðherra og mun sem formaður utanríkismálanefndar reyna að vinna að hröðum framgangi málsins eins og óskað hefur verið eftir á þessu sumarþingi.

Í fyrsta lagi finnst mér ástæða til að fagna þeim áfanga sem þetta frumvarp ber með sér, þ.e. þeim áfanga að tekist hefur samkomulag um stækkun Evrópska efnahagssvæðisins. Það var í sjálfu sér ekki sjálfgefið og á fyrra þingi fylgdist utanríkismálanefnd með því með aðstoð þáverandi utanríkisráðherra með hvaða hætti samningaviðræður um þetta efni þróuðust. Það var sannarlega nokkurt áhyggjuefni hversu mjög dróst á langinn að ljúka þessum samningaviðræðum og stefndi í hálfgert óefni en eins og fram kemur í greinargerð með þessu frumvarpi voru það einkum atriði sem lutu að því að tryggja til að mynda bæði Íslandi og Noregi sambærileg réttindi og gilt höfðu á grundvelli fríverslunarsamninga sem töfðu samningaumræður í þessu máli. Ég held að það megi taka undir með því sem segir í frumvarpinu að ágætlega hagstæð niðurstaða hefur fengist í þessar samningaviðræður þó að því sé ekki að leyna að það er dálítið erfitt að átta sig á því hvernig það reikningsdæmi gerir sig upp í krónum og aurum. Það hefur komið fram að það megi áætla að lækkun tolla nemi á ársgrundvelli um 70 millj., þ.e. sú lækkun tolla sem samdist um sérstaklega í tengslum við þessa stækkun sem ella hefði ekki verið í gildi og við fórnuðum með því að fríverslunarsamningarnir við ríkin féllu niður við inngöngu þeirra í Evrópusambandið og við stækkun Evópska efnahagssvæðisins. Á móti kemur síðan aukið framlag Íslendinga vegna þróunarsjóðs EFTA, en hvernig þetta allt saman er fundið út er dálítið erfitt að átta sig á. Síðan spilar auðvitað inn í þessa mynd sú staðreynd að lækkun tollanna er tímabundin, reyndar eins og framlagið, en hvernig það gerir sig upp til lengri tíma litið þegar borið er saman framtíðarfyrirkomulagið eftir að þessari tímabundnu tollalækkun er lokið eða það tímabil tekur enda, samanborið við það að hafa haft til lengri tíma fríverslunarsamninga við þessi ríki, er erfitt að átta sig á.

Það mat er lagt á niðurstöðuna í þessu frumvarpi, og það er engin ástæða til að draga það í efa, að þessir samningar séu ágætlega viðunandi. Það er ábyggilega rétt sem þarna kemur fram að í þessu máli eru heilmiklir viðskiptahagsmunir fyrir íslensk útflutningsfyrirtæki, einkum eins og kemur fram í málinu sjálfu vegna útflutnings á sjávarafurðum. Það er ástæða til að fagna því í fyrsta lagi að tekist hafi að tryggja samhliða stækkun EES-samningsins með stækkun Evrópusambandsins og síðan að við Íslendingar höfum fengið að því er virðist þokkalega hagstæðan samning vegna viðskiptahagsmuna okkar í tengslum við þetta.

Það sem einkum hefur verið til umræðu í dag og má svo sem vænta að þurfi enn frekari umræðu áður en þetta mál fæst afgreitt hér á hinu háa Alþingi lýtur að því sem við höfum rætt í dag, þ.e. ákvæðum frumvarpsins um frestun á réttindum nýju aðildarríkjanna til frjálsrar farar á Evrópska efnahagssvæðinu, þ.e. hingað til Íslands á íslenskan vinnumarkað. Það er að mörgu að hyggja í því samhengi. Ég er þeirrar skoðunar að skynsamlegt sé að beita rétti okkar til að fresta gildistökunni um frjálsa för eins og gert hefur verið og það er mikilvægt að hafa í huga í því sambandi að þá frestun getum við afturkallað hvenær sem er með einfaldri samþykkt á þinginu. Hvenær sem er fyrir 1. janúar 2009 getum við skipt um skoðun, eða hvenær sem er í sjálfu sér eftir 2009 ef við ákveðum að framlengja enn frekar getum við fellt niður þann fyrirvara.

Í öðru lagi finnst mér það líka skipta miklu máli sem fram kemur í frumvarpinu á blaðsíðu 8 að samkvæmt aðildarsamningi EES er núverandi aðildarríkjum gert að veita launamönnum sem eru ríkisborgarar þessara ríkja forgang fram yfir ríkisborgara ríkja utan EES-svæðisins að því er varðar aðgengi að vinnumarkaði. Þetta skiptir einnig máli þegar horft er til þess að við hyggjumst beita þessari heimild. Málið í heild sinni ber að skoða með hliðsjón af þessu tvennu að mínu áliti, þ.e. annars vegar heimild okkar til þess að falla frá fyrirvaranum og hins vegar þessari sérstöku stöðu hinna nýju aðildarríkja.

Að öðru leyti má svo sem segja að hér sé um nokkuð viðkvæmt mál að ræða fyrir íslenskan vinnumarkað. Það er rétt sem fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að þó nokkuð mikil þensla hefur verið á íslenska vinnumarkaðnum og því má svo sem halda fram með rökum að það sé ekki til þess fallið sérstaklega að slá á þensluna að hindra för eða komu þessa vinnuafls sem nú bætist við Evrópska efnahagssvæðið hingað til lands, heldur þvert á móti sé það frekar til þess fallið að auka á þensluna. Hins vegar erum við afskaplega lítið atvinnusvæði og ég bara tek undir með því sem segir í frumvarpinu að það sé ástæða til að stíga varlega til jarðar. Svo margt hefur breyst í þessu samhengi á skömmum tíma hjá okkur á Íslandi að það er full ástæða til að staldra aðeins við og skoða með hvaða hætti þessir hlutir kunna að vera að breytast til lengri tíma litið.

Við sjáum merkin mjög víða. Við sjáum þau t.d. í því hversu ört vaxandi fjöldi fær íslenskan ríkisborgararétt á grundvelli langtímadvalar á Íslandi ár frá ári. Það fer að nálgast 1.000 manns á ári sem hefur uppfyllt öll skilyrði þess að fá íslenskan ríkisborgararétt, 1.000 manns á ári á grundvelli langtímadvalar á Íslandi. Þessi tala hefur vaxið mjög hratt eins og við ræddum um á síðasta þingi þegar við fjölluðum um lög um íslenskan ríkisborgararétt og breytingar á gildandi lögum í því efni. Þarna er sem sagt um þá spurningu að ræða til hversu langs tíma vinnuaflið komi hingað þegar það fyrst sækist eftir komu inn á íslenskan atvinnumarkað. Í svo stórum verkefnum sem hafa verið til umfjöllunar í umræðunni í dag, eins og Kárahnjúkaverkefnið svonefnda er dæmi um, má svo sem gera ráð fyrir því að stór hluti af vinnuaflinu sé kominn hingað til skamms tíma. Greining á því á hvaða forsendum vinnuaflið sækir til Íslands er nauðsynleg að mínu áliti til þess að reyna að átta sig betur á því hver langtímaáhrifin kunna að verða. Síðan kunna auðvitað líka forsendur einstaklinganna að breytast, það er vel mögulegt að stór hluti vinnuaflsins komi hingað upphaflega til skammtímadvalar en sækist síðan eftir varanlegri dvöl eftir að viðkomandi hefur verið hérna í einhvern tíma.

Þetta er bara nýr veruleiki sem við búum við. Við höfum ákveðið á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið að forgangsraða í þágu þeirra sem eru á svæðinu og því má aldrei gleyma í þessari umræðu að hérna er um tvíhliða réttindi að ræða. Réttur okkar til að sækja til annarra landa inni á Evrópska efnahagssvæðinu er nákvæmlega sá sami og réttur íbúa aðildarríkjanna er til þess að koma hingað og njóta réttinda sinna hér á grundvelli samningsins.

Ég styð sem sagt eindregið þá tillögu sem fylgir þessu frumvarpi um að við frestum gildistökuákvæðunum um frjálsa för þessara nýju aðildarríkja og tel skynsamlegt að á næstu missirum og árum verði farið aðeins ofan í ýmis langtímaáhrif af stækkun Evrópska efnahagssvæðisins og að áfram verði þróaðar þær reglur sem gilda um komu erlends vinnuafls inn á íslenska atvinnusvæðið. Við tökum eftir því í fjölmiðlum, bara síðast í dag, að ýmis útfærsluatriði þarfnast frekari skoðunar samanber það sem hæstv. utanríkisráðherra vék að varðandi sérfræðinga sem koma utan Evrópska efnahagssvæðisins, hvort sem er frá Asíu eða Bandaríkjum Norður-Ameríku eða annars staðar að í heiminum, og það er margt sem betur má fara í löggjöfinni sem er til þess fallið, bæði í senn, að taka tillit til íslensks atvinnulífs og tryggja að hér verði engin félagsleg undirboð á íslenska vinnumarkaðnum.

Að þessu mæltu ítreka ég að við munum í utanríkismálanefnd vinna ötullega að þessu máli og reyna að tryggja því framgang á þessu sumarþingi, kalla eftir sjónarmiðum og umsögnum eftir því sem ástæða þykir til og ég ætla þess vegna ekki að hafa fleiri orð um málið á þessu stigi.