134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

þátttaka Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu.

2. mál
[17:12]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekki alveg í stakk búin til að svara þessum spurningum á þessum tímapunkti en mun að sjálfsögðu fara yfir spurningarnar og skoða hvað hægt er að gera í því. Ég vil hins vegar segja það varðandi almannatryggingar að þá gilda reglur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið á sviði almannatrygginga um ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu. Þeir eiga því að njóta almannatrygginga þegar þeir hingað koma á íslenskan vinnumarkað.

Varðandi hina spurninguna þá mun ég að sjálfsögðu eins og ég sagði skoða hvað hægt er að gera í þessum efnum og minni á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er skýrt kveðið á um að hún muni vinna að því að koma í veg fyrir félagsleg undirboð á vinnumarkaði.