134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

viðurkenning Íslands á ríkisstjórn Palestínu.

3. mál
[17:53]
Hlusta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu mikið. Ég þakka fyrir ræðurnar hér og undirtektir sem þessi tillaga hefur fengið og þakka hæstv. utanríkisráðherrar fyrir að taka þátt í umræðunni.

Ég hefði auðvitað kosið að hæstv. ráðherra væri afdráttarlausari í svörum sínum og lýsti einfaldlega yfir áformum eða ásetningi sínum um að beita sér fyrir, í krafti embættis síns, því að taka upp þessi eðlilegu samskipti. En að því vill þó hæstv. ráðherra vinna og það er jákvætt svo langt sem það nær.

Varðandi það að Alþingi móti þá stefnuna, eins og hæstv. ráðherra í raun og veru vísaði til og óskaði eftir að utanríkismálanefnd tæki málið til umfjöllunar og skoðunar, þá verðum við að sjálfsögðu við þeirri bón. Annað kemur tæplega til greina. Okkur ætti ekki að vera að vanbúnaði að funda í utanríkismálanefnd á næstu sólarhringum og fá á hreint hvort vilji stendur til þess að afgreiða þetta mál. Mér finnst að minnsta kosti nokkuð augljóst að álykta megi að fyrir því sé meirihlutastuðningur á Alþingi. En að sjálfsögðu er æskilegast, ef hægt er, að ná um þetta algjörum og þverpólitískum stuðningi.

Það er rétt sem hér var nefnt að forsagan í málinu vísaði í þá átt. Með merkari ályktunum Alþingis á sviði utanríkismála er t.d. ályktunin frá 1989, þegar nokkrir þingmenn undir forustu Hjörleifs Guttormssonar beittu sér fyrir því að hér næðist samstaða um tímamótaályktun, í raun róttæka ályktun á mælikvarða vestrænna þjóðþinga, þar sem tilveruréttur Palestínuríkis var viðurkenndur. Þá var ályktað um að taka upp eðlileg samskipti við Yasser Arafat og hreyfingu hans sem forustumenn palestínsku þjóðarinnar. Þar var reyndar gengið lengra og ályktað um rétt flóttamanna til að snúa heim og rétt Palestínumanna til lands síns.

Sú samþykkt var merk og róttæk og Alþingi til sóma. Það er ekki svo oft sem maður getur virkilega bent á að Alþingi hafi sjálft tekið frumkvæði í að móta framsækna stefnu í þeim efnum. Sama má að sjálfsögðu segja um heimsókn forsætisráðherra þáverandi, Steingríms Hermannssonar, til Arafats á sínum tíma sem var sömuleiðis merkileg.

Ef ég man rétt náðist samkomulag um að bæta við ályktunina frá 1989, líklega á árinu 2000, gott ef ekki var að frumkvæði og tillöguflutningi sem ættaður var úr herbúðum Samfylkingarinnar. Þannig hafa margir lagt hönd á plóginn í þessum efnum á undanförnum árum.

Ég vonast til þess að við ljúkum afgreiðslu þessa máls í framhaldi af því sem hér hefur verið sagt og í framhaldi af hvatningarorðum utanríkisráðherra þar um. Takist það hins vegar ekki þá hlýtur að reyna á það á næstu vikum hvort ríkisstjórnin, sem fer með framkvæmdarvald í þessum efnum og getur þá vísað til jákvæðrar umfjöllunar um málið á Alþingi, klárar málið. Það væri tiltölulega einfalt. Til þess duga ósköp einfaldlega sambærilegar yfirlýsingar og Norðmenn gáfu og sendu aðstoðarutanríkisráðherra sinn á svæðið til að boða mönnum það fagnaðarerindi.

Ég er viss um að slíku yrði tekið fegins hendi af talsmönnum Palestínumanna og minni á að í palestínsku ríkisstjórninni situr maður, Mustafa Barghouti, sem er vel kunnugur á Íslandi og Norðurlöndum. Hann er upplýsingamálaráðherra ríkisstjórnarinnar ef ég man rétt og því eru hæg heimatökin að koma skilaboðunum áleiðis beint inn í palestínsku ríkisstjórnina.

Ég þakka fyrir þessa umræðu, virðulegi forseti. Ég vona að hún sé upphafið að því að Alþingi fylgi eftir arfleifð sinni í þessum efnum og þori að taka djarfar og stefnumótandi ákvarðanir. Okkur er ekki mikill vandi á höndum að þessu sinni vegna þess að við getum þar einfaldlega fylgt því glæsilega frumkvæði sem Norðmenn hafa tekið í málinu.