134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

lög um fjárreiður stjórnmálasamtaka.

[13:35]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kemur með athyglisverðar ábendingar varðandi hin nýju lög um fjármál stjórnmálaflokkanna og atburði sem urðu í kosningabaráttunni. Það er alveg ljóst að fyrir okkur sem beittum okkur fyrir lagasetningunni fyrir jólin vakti það að draga úr óeðlilegum afskiptum, sérstaklega fyrirtækja, af stjórnmálabaráttunni og um það náðist gott samkomulag sem markaði ákveðin tímamót á því sviði. Flokkarnir sem þá sátu á Alþingi gerðu síðan einnig samkomulag um að takmarka auglýsingar eins og hv. þingmaður rakti en þó voru ný framboð að sjálfsögðu ekki bundin af því.

Það sem gerðist síðan í baráttunni og hv. þingmaður rakti kom okkur auðvitað á óvart. Ég sagði það þegar ég var spurður um þetta blað, DV, í kosningabaráttunni að það ætti að færa það á auglýsingareikning þáverandi stjórnarandstöðuflokka. En menn verða að láta ýmislegt yfir sig ganga í svona kosningabaráttu, hversu ósmekklegt sem það er, alveg eins og hv. þingmaður nefndi varðandi tilteknar auglýsingar sem birtar voru hér til höfuðs tilteknum frambjóðanda. Við þurfum að fara yfir þetta allt, það er rétt hjá hv. þingmanni, við þurfum að fara yfir reynsluna af þessum lögum og skoða með hvaða hætti þeir mánuðir sem liðnir eru frá því að þau voru sett geta nýst okkur til endurmats á þessum lögum. Það þarf jafnframt að hafa í huga og margir bentu á það þegar verið var að undirbúa þessi lög að það yrði að gæta þess að höggva ekki nærri prent- eða tjáningarfrelsinu í landinu og að sú hætta gæti verið fyrir hendi að upp mundu spretta hliðarsamtök eða stofnanir við hliðina á stjórnmálaflokkunum og heyja baráttu fyrir þeirra hönd. Við kynnum að eiga erfitt með að höndla slíkt nýtt vandamál. Og það fer ekki hjá því að eitthvað í þá áttina hafi gerst í þessari kosningabaráttu því að tiltekin samtök hafa með beinum eða óbeinum hætti lýst fylgi eða stuðningi við tiltekna flokka í þessari baráttu.

Allt er þetta tilefni til að skoða að nýju og (Forseti hringir.) það er alveg rétt og ég þakka hv. þingmanni fyrir þær ábendingar.