134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

lög um fjárreiður stjórnmálasamtaka.

[13:38]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. 3. þm. Suðurk. fyrir að taka þetta mál hér upp. Það er eðlilegt að núna í kjölfar þingkosninga sé þetta mál tekið upp til frekari umræðu. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði vorum ánægð með þá löggjöf sem sett var um fjármál stjórnmálaflokkanna á sínum tíma. Það var mikil framför fólgin í henni. Að vísu hafði hún ekki mjög miklar breytingar í för með sér fyrir okkur því að við höfum frá fyrsta degi haft fjármál okkar opin.

Ég hygg að í tengslum við þá löggjöf sem sett var og samkomulag flokkanna í kjölfarið hafi verið rætt um að takmarka inngrip utanaðkomandi aðila þannig að kosningabaráttan yrði ekki með svipuðu sniði og við höfum séð í löndunum í kringum okkur, sérstaklega í Bandaríkjunum. Niðurstaðan mun hafa orðið sú eftir því sem ég best veit að gera það ekki, a.m.k. ekki fyrsta kastið. Það er hins vegar full ástæða til að taka þetta nú til frekari umfjöllunar eins og hér er vakið máls á af hv. þingmanni, og ég heyri að hæstv. forsætisráðherra tekur undir það.

Það samkomulag sem gert var um auglýsingar af hálfu flokkanna fyrir þessar kosningar var gott svo langt sem það náði, en að sjálfsögðu er full ástæða til að reyna að styrkja það. Ákjósanlegt er að gera það með góðum fyrirvara þannig að flokkarnir séu ekki í tímaþröng í aðdraganda kosninganna sjálfra og ég hvet þess vegna til þess að forustumenn flokkanna reyni að endurnýja það samkomulag og eins og ég segi geri það með góðum fyrirvara.